Héraðsdómur Suðurlands féllst á kröfu lögreglustjórans á Suðurlandi í dag um að konu yrði gert að sæta gæsluvarðhaldi í eina viku vegna rannsóknar á máli sem varðar frelsissviptingu, fjárkúgun og manndráp. Alls sæta fjórir gæsluvarðhaldi vegna rannsóknar málsins, tveir karlar og tvær konur.
Síðar í kvöld mun sá fimmti verða leiddur fyrir dómara, karlmaður sem handtekinn var í gærkvöldi. Fer lögreglan fram á að hann verði úrskurðaður í gæsluvarðhald.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglunni á Suðurlandi.
Landsréttur staðfesti fyrr í dag gæsluvarðhaldsúrskurð Héraðsdóms Suðurlands frá því á miðvikudag yfir þeim tveimur sem kærðu úrskurðina til Landsréttar.
Í tilkynningu lögreglu segir að rannsókn málsins miði vel og haldi áfram af fullum þunga en vegna rannsóknarhagsmuna sé ekki unnt að veita nánari upplýsingar um málið að svo stöddu.