Kröfu nokkurra landeigenda á leið Suðurnesjalínu 2 um að ógilt yrði ákvörðun þáverandi umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra frá 21. júní í fyrra, um heimild Landsnets til eignarnáms réttinda vegna lagningar Suðurnesjalínu 2 í landi þriggja jarða í Sveitarfélaginu Vogum, var hafnað í Héraðsdómi Reykjavíkur í gær.
Segir í dóminum að málsmeðferð ráðherra vegna ákvörðunar um að heimila eignarnámið og að leggja kvöð á jarðir þær sem málinu tengjast hafi ekki verið haldin þeim annmörkum sem leitt geti til ógildingar ákvörðunarinnar. Þá hafi málsmeðferð Landsnets í aðdraganda þess að eignarnámsbeiðnin var sett fram heldur ekki verið haldin þeim form- eða efnisgöllum sem leitt geti til þess að ákvörðunin verði felld úr gildi.
Þá segir í dóminum að íslenska ríkið og Landsnet teljist hafa axlað sönnunarbyrði sína fyrir því að ákvörðun ráðuneytisins hafi verið lögmæt, réttmæt og engum ágöllum haldin sem valdið geti því að hana beri að ógilda.
Voru því framangreindir aðilar sýknaðir af kröfu landeigenda um ógildingu eignarnámsheimildarinnar.
„Niðurstaðan kemur ekki á óvart enda hefur Suðurnesjalína 2 farið í gegnum mikla og vandaða vinnu ásamt samtali og samvinnu við hagsmunaaðila á svæðinu,“ segir Guðmundur Ingi Ásmundsson forstjóri Landsnets um niðurstöðu dómsins í samtali við Morgunblaðið.
Lesa má nánar um málið í Morgunblaðinu í dag