„Mjög sérstakt á meðal Evrópuþjóða“

Daði Már Kristófersson, fjármála- og efnahagsráðherra.
Daði Már Kristófersson, fjármála- og efnahagsráðherra. mbl.is/Eyþór

Daði Már Kristó­fers­son, fjár­mála- og efna­hags­ráðherra, seg­ir það sér­stakt hve lengi aðgerðir á Covid-tím­um hafi staðið yfir. Ísland hefði, eft­ir á að hyggja, átt að líta til ná­granna­landa sinna sem voru grimm­ari í að skera niður um leið og vís­bend­ing­ar um hag­vöxt fóru að sýna sig.

Þetta sagði Daði í sam­tali við mbl.is að lokn­um rík­is­stjórn­ar­fundi í morg­un.

Lét ráðherr­ann þau um­mæli falla á Alþingi í gær að Ísland eigi vafa­samt met þegar komi að aðgerðum í kring­um far­ald­ur­inn.

Sér­stakt á meðal Evr­ópuþjóða

„Það sem var kannski fyrst og fremst sér­stakt við Covid-aðgerðirn­ar á Íslandi var hvað þær stóðu yfir lengi og stóðu raun­veru­lega langt inn­an þess tíma­bils sem hag­vöxt­ur fór að taka við sér aft­ur,“ seg­ir ráðherr­ann. 

Hann seg­ir gríðar­mik­inn hag­vöxt hafa orðið á þeim tím­um þegar aðgerðir stóðu enn yfir hér á landi, eft­ir að far­aldr­in­um hafi lokið. 

„Þetta hef­ur verið rætt. Það er kannski oft þannig að það er vanda­mál að fjár­magna og þá verða aðgerðir aft­ur­hlaðnar en þetta var mjög sér­stakt á meðal Evr­ópuþjóða.“

Er með sam­an­b­urð yfir hversu lengi aðgerðir stóðu yfir miðað við önn­ur lönd

Var Ísland efst á ein­hverj­um lista? Slóg­um við met?

„Við töluðum um það en ég er ekki með töl­urn­ar fyr­ir fram­an mig.“

Þú ert ekki með sam­an­b­urð með ein­hverj­um töl­um?

„Nei, en við eig­um mjög góðan sam­an­b­urð yfir hversu lengi það stóð. Ég er held­ur ekki með það fyr­ir fram­an mig núna. Ég skal koma með það næst.“

Gagn­rýn­in kem­ur frá hag­fræðing­um 

En þá er kannski vert að spyrja, ef þú hefðir verið í rík­is­stjórn - hvernig hefðir þú viljað af­greiða þetta fjár­hags­lega?

„Það er al­veg rosa­lega – og ég viður­kenndi þetta í ræðustól á Alþingi – að það er alltaf mjög erfitt – og ég tók það fram, ég var ekki að hall­mæla nein­um – að það er alltaf mjög erfitt að meta um­fang áfalla fyr­ir fram og á meðan á þeim stend­ur. Og fyr­ir þessu ber­um við virðingu.

Hitt er annað mál að kannski fyrst og fremst hef­ur verið gagn­rýnt að aðgerðirn­ar hafi haldið áfram eft­ir að ljóst varð að hag­vöxt­ur tók mjög hraust­lega við sér.“

Hvaðan kem­ur sú gagn­rýni?

„Frá hag­fræðing­um.“

„Eft­ir á að hyggja, já“

Þá seg­ir ráðherr­ann ríkið alltaf þurfa að gæta að því að aðgerðir sem það grípi til skapi ekki þenslu. Það sé þó auðvitað erfitt hlut­verk.

„Ná­granna­lönd­in voru grimm­ari í að byrja strax að skera niður um leið og vís­bend­ing­ar um hag­vöxt fóru að sýna sig, til þess að eiga ekki í hættu á þenslu.“

Þannig að aðgerðir okk­ar hefðu átt að sam­ræm­ast þeim meira?

„Eft­ir á að hyggja, já.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert