„Mjög sérstakt á meðal Evrópuþjóða“

Daði Már Kristófersson, fjármála- og efnahagsráðherra.
Daði Már Kristófersson, fjármála- og efnahagsráðherra. mbl.is/Eyþór

Daði Már Kristófersson, fjármála- og efnahagsráðherra, segir það sérstakt hve lengi aðgerðir á Covid-tímum hafi staðið yfir. Ísland hefði, eftir á að hyggja, átt að líta til nágrannalanda sinna sem voru grimmari í að skera niður um leið og vísbendingar um hagvöxt fóru að sýna sig.

Þetta sagði Daði í samtali við mbl.is að loknum ríkisstjórnarfundi í morgun.

Lét ráðherrann þau ummæli falla á Alþingi í gær að Ísland eigi vafasamt met þegar komi að aðgerðum í kringum faraldurinn.

Sérstakt á meðal Evrópuþjóða

„Það sem var kannski fyrst og fremst sérstakt við Covid-aðgerðirnar á Íslandi var hvað þær stóðu yfir lengi og stóðu raunverulega langt innan þess tímabils sem hagvöxtur fór að taka við sér aftur,“ segir ráðherrann. 

Hann segir gríðarmikinn hagvöxt hafa orðið á þeim tímum þegar aðgerðir stóðu enn yfir hér á landi, eftir að faraldrinum hafi lokið. 

„Þetta hefur verið rætt. Það er kannski oft þannig að það er vandamál að fjármagna og þá verða aðgerðir afturhlaðnar en þetta var mjög sérstakt á meðal Evrópuþjóða.“

Er með samanburð yfir hversu lengi aðgerðir stóðu yfir miðað við önnur lönd

Var Ísland efst á einhverjum lista? Slógum við met?

„Við töluðum um það en ég er ekki með tölurnar fyrir framan mig.“

Þú ert ekki með samanburð með einhverjum tölum?

„Nei, en við eigum mjög góðan samanburð yfir hversu lengi það stóð. Ég er heldur ekki með það fyrir framan mig núna. Ég skal koma með það næst.“

Gagnrýnin kemur frá hagfræðingum 

En þá er kannski vert að spyrja, ef þú hefðir verið í ríkisstjórn - hvernig hefðir þú viljað afgreiða þetta fjárhagslega?

„Það er alveg rosalega – og ég viðurkenndi þetta í ræðustól á Alþingi – að það er alltaf mjög erfitt – og ég tók það fram, ég var ekki að hallmæla neinum – að það er alltaf mjög erfitt að meta umfang áfalla fyrir fram og á meðan á þeim stendur. Og fyrir þessu berum við virðingu.

Hitt er annað mál að kannski fyrst og fremst hefur verið gagnrýnt að aðgerðirnar hafi haldið áfram eftir að ljóst varð að hagvöxtur tók mjög hraustlega við sér.“

Hvaðan kemur sú gagnrýni?

„Frá hagfræðingum.“

„Eftir á að hyggja, já“

Þá segir ráðherrann ríkið alltaf þurfa að gæta að því að aðgerðir sem það grípi til skapi ekki þenslu. Það sé þó auðvitað erfitt hlutverk.

„Nágrannalöndin voru grimmari í að byrja strax að skera niður um leið og vísbendingar um hagvöxt fóru að sýna sig, til þess að eiga ekki í hættu á þenslu.“

Þannig að aðgerðir okkar hefðu átt að samræmast þeim meira?

„Eftir á að hyggja, já.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert