Reyndu að þvinga mann til að taka út pening

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu segir að tilkynnt hafi verið um tvo einstaklinga sem hafi verið að reyna að þvinga annan mann að taka út pening í hraðbanka á Seltjarnarnesi í dag. Árásarmennirnir voru farnir er lögreglu bar að garði.

Þetta kemur fram í yfirliti lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu yfir verkefni dagsins.

192 mál á tólf tímum

Þar kemur fram að nú síðdegis gistu þrír einstaklingar í fangaklefa. Alls hafa verið bókuð 192 mál í kerfum lögreglu á tímabilinu frá 05:00 til 17:00.

Verkefnin eru líkt og vanalega af ýmsum toga. Meðal annars var tilkynnt um einstakling sem var búinn að hreiðra um sig í fyrirtæki í hverfi í miðborginni. Viðkomandi var kærður fyrir þjófnað og húsbrot.

Stal orkustykki

Þá læstu fíkniefnaneytendur sig inni á klósetti hjá fyrirtæki í hverfi í miðborginni. Þeim var vísað út af lögreglu.

Lögreglan hafði svo hendur í hári einstaklings sem var tekinn fyrir hnupl í verslun í miðborginni. Um var að ræða eitt orkustykki.

Þá voru tvær ungar stúlkur teknar fyrir þjófnað frá verslun í Háaleitis- og Bústaðahverfi.

Ölvaður á hjóli

Í Kópavogi var svo tilkynnt um umferðaróhapp þar sem ölvaður reiðhjólamaður hjólaði á bifreið.

Lögreglan greinir enn fremur frá því að hópur af ungmennum hafi verið að hrella fólk í Mjódd.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert