Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og fyrrverandi ráðherra, segir í samtali við mbl.is, það vera á ríkisstjórninni og Ásthildi Lóu að gera grein fyrir ummælum hennar um íslenska dómstóla.
„Og hvað þau þýða því um er að ræða alvarlega aðför að sjálfstæði dómstóla,“ segir Áslaug Arna.
Yfirlýsingin grefur alvarlega undan trausti almennings á réttarkerfinu að mati Áslaugar og er því sérstaklega alvarleg að hennar mati komandi frá ráðherra.
Segir hún það auðvitað vera sérstakt að ráðherra í ríkisstjórn Íslands sé í miklum deilum og málaferlum við íslenska ríkið en steininn hafi tekið úr þegar viðbrögð ráðherrans við dómsniðurstöðunni komu með þeim hætti sem raun bar vitni. Það sé öllu alvarlegra.
„Eins og ég skrifaði í færslu minni er auðvitað ekkert athugavert við það að fólk sé stundum ósátt við einstaka niðurstöður dómstóla eða telji þær rangar en þá er mikilvægt að benda á rök eða lagagrundvöll,“ segir Áslaug.
Það segir hún ráðherrann ekki gera heldur ráðast með gríðarlega ómálefnalegum og alvarlegum hætti að dómskerfinu.
„Því hlýtur síðan að vera velt upp hvað þessi ráðherra vill sjá að þessi ríkisstjórn geri til að tryggja réttlæti í dómskerfinu sem hún telur ekki vera til staðar.
Það hljóta allir að sjá að þarna hefur verið gengið allt of langt og algjörlega óboðlegt að ráðherra tali með þessum hætti í íslensku lýðræðissamfélagi.
Það er mjög óábyrgt og hættulegt að ráðherra ráðist svona á sjálfstæði dómstóla og sýni þannig bæði almenna lítilsvirðingu og vegi að grunnstoðum lýðræðis og trúverðugleika,“ segir Áslaug Arna.