Sjúkraflutningamenn skoða aðgerðir

Þeir sem starfa í sjúkraflutningum hjá sveitarfélögum eru á allt …
Þeir sem starfa í sjúkraflutningum hjá sveitarfélögum eru á allt að 20% hærra kaupi en þeir sem starfa hjá ríkinu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Bjarni Ingimars­son formaður Landssamband slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna, segir samningaviðræður við samninganefnd ríkisins stranda á launamuni milli ríkis og sveitarfélaga en þeir sem starfa í sjúkraflutningum hjá sveitarfélögum eru á allt að 20% hærra kaupi en þeir sem starfa hjá ríkinu, að sögn Bjarna.

LSS fundaði með samninganefnd ríkisins skömmu eftir hádegi í dag.

Í samtali við mbl.is segir Bjarni að um tiltölulega stuttan fund hafi verið að ræða og það sé í raun ekkert að gerast í viðræðunum.

„Okkar vilji er að lausnir verði fundnar til að jafna launamuninn út en ríkið er búið að semja við flest alla á sömu nótum og hefur ekki viljað fara út fyrir það,“ segir hann.

Vilja virðismat fljótt

Segir hann vilja innan þeirra raða að fara í virðismat fljótt sem tæki gildi einhvern tímann á samningstímanum, og vísar þar til samningamála kennara en ríkið teygði sig lengra í viðræðum við kennara en aðra viðsemjendur sína.

Bjarni segir að menn muni taka helgina rólega og fari svo að skoða til hvaða aðgerða sé hægt að grípa til að búa til einhverja pressu. Aðgerðir myndu þá snúa að sjúkraflutningamönnum sem starfa hjá heilbrigðisstofnunum.

Spurður um mögulegar aðgerðir nefnir hann yfirvinnubann og svo það að menn geti gefið frá sér boðtæki svo ekki verði hægt að ná á þeim. Þá segir hann að einhvers konar verkfallsaðgerðir komi einnig til greina.

Samtalið við sveitarfélögin gengur vel

LSS fundaði einnig með samninganefnd Sambands íslenskra sveitarfélaga í morgun og gekk sá fundur talsvert betur. Raunar segir Bjarni hann hafa gengið mjög vel, það sé góður skriður á samtalinu og búið sé að boða fund aftur í næstu viku.

Fyrsti fund­ur­inn í deilunni fór fram í síðustu viku frá því að fé­lags­menn í LSS felldu kjara­samn­ing við sveit­ar­fé­lög­in í síðasta mánuði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert