Starfsfólki sendiráðsins í Moskvu var ógnað

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, þáverandi utanríkisráðherra, kallaði Mík­haíl Noskov, sendiherra …
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, þáverandi utanríkisráðherra, kallaði Mík­haíl Noskov, sendiherra Rússlands á Íslandi, á sinn fund og tilkynnti honum um ákvörðunina. Árni Þór Sigurðsson var sendiherra Íslands í Moskvu. Samsett mynd

Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir, fyrrverandi utanríkisráðherra, segir í samtali við fréttastofu Rúv, ekki hafa verið hægt að tryggja öryggi starfsmanna sendiráðs Íslands í Moskvu í aðdraganda þess að sendiráðinu var lokað í ágúst 2023.

Lokun sendiráðs Íslands í Moskvu vakti mikla athygli um allan heim en Ísland varð fyrst allra ríkja til að leggja niður starfsemi sendiráðs í Rússlandi eftir að innrásarstríð Rússa í Úkraínu hófst.

Rússar hafi brotist inn á heimili starfsmanna

Fyrst var fjallað um málið í breska dagblaðinu Daily Express en þar kemur fram að brotist hafi verið inn á heimili starfsmanna í þeim tilgangi að hræða þá og sýna fram á að Rússar hefðu aðgang að íbúðum þeirra eftir hentisemi.

Meðal yfirlýsinga Rússa í tengslum við innbrotin var að kjöti var komið fyrir í ísskáp grænmetisætu, logandi sígaretta notuð til að gera brunaför og gluggi skilinn eftir opinn í íbúð starfsmanns.

Daily Express fullyrðir að rússneska leyniþjónustan hafi borið ábyrgð á innbrotunum og áreitinu.

Þórdís segir öryggi starfsmanna hafa haft áhrif á þá ákvörðun að leggja sendiráðið niður en aðrar ástæður hafi einnig verið fyrir ákvörðuninni á sínum tíma.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert