Svört skýrsla: Brotið gegn réttindum barna

Umboðsmaður Alþingis gerði úttekt á fangaklefunum á Flatahrauni sem nýttir …
Umboðsmaður Alþingis gerði úttekt á fangaklefunum á Flatahrauni sem nýttir hafa verið til neyðarvistunar fyrir börn. Samsett mynd

Brotið er gegn réttindum barna sem vistuð hafa verið í fangageymslum á Flatahrauni og úrræðið hentar ekki sem vistunarstaður fyrir börn. Þetta er meðal þeirra niðurstaðna sem Umboðsmaður Alþingis kemst að í nýútgefinni skýrslu um úrræðið.

Umboðsmaður heimsótti úrræðið á grundvelli OPCAT-eftirlits, sem ætlað er að hindra pyndingar eða aðra grimmilega, ómannlega eða vanvirðandi meðferð eða refsingu á stöðum þar sem frelsissviptir dvelja. Heimsóknin fór fram 12. desember 2024.

„Það er niðurstaða umboðsmanns að þegar virt er umhverfi og aðbúnaður úrræðisins í heild sinni, takmarkanir á réttindum barnanna sem af vistuninni geta leitt og viðkvæm staða þeirra að öðru leyti verði ekki hjá því komist að líta svo á að Flatahraun sé ekki viðeigandi vistunarstaður fyrir börn. Tilmælum um að endurskoða þá tilhögun að vista börn í fangageymslu á Flatahrauni er beint til Barna- og fjölskyldustofu og mennta- og barnamálaráðherra,“ segir orðrétt í skýrslunni.

Umboðsmaður barna fjallaði um skýrsluna í dag og segir skýrsluna varpa ljósi á það að með rekstri úrræðisins sé gróflega brotið gegn réttindum barna. 

25 vistanir skráðar

Fram kemur í skýrslunni að alls hafi 25 vistanir barna verið skráðar á Flatahrauni frá 8. nóvember 2024 til 4. febrúar 2025. Börnin voru á aldrinum 13 til 17 ára og dvöldu þar frá hálfum sólarhring upp í sex daga. Neyðarvistun barna á lögreglustöðinni á Flatahrauni hófst í nóvember 2024 eftir bruna í húsnæði Stuðla.

mbl.is hefur áður fjallað um að fangageymslurnar hafi verið nýttar til að vista börn og þann aðbúnað sem börn búa við sem sæta vistun þar. Til stendur að loka úrræðinu fyrir 21. mars.

Í skýrslunni segir að aðbúnaður sé óviðunandi fyrir börn þar sem um er að ræða hefðbundna fangageymslu. Engir gluggar, klukkur eða speglar eru í klefunum og svefn- og hreinlætisaðstaða er kuldaleg.

Börn vistuð í einangrun í reynd

Þá segir enn fremur að sum börn hafi verið vistuð í einangrun í reynd, án þess að slík vistun væri formlega skráð sem þvingunarráðstöfun. Þetta vekur áhyggjur umboðsmanns Alþingis um að vistunin kunni að brjóta í bága við réttindi barna samkvæmt alþjóðlegum samningum.

Þá kemst umboðsmaður að þeirri niðurstöðu að börnin sem vistuð voru á Flatahrauni hafi haft lítið fyrir stafni og að engin skipulögð dagskrá eða virkni hafi verið í boði. Engin aðstaða var fyrir útiveru, og þegar sjónvarp bilaði á staðnum höfðu börn lítið annað að gera en að sitja innilokuð í klefunum sínum.

Þá voru samskipti barna takmörkuð, bæði við starfsfólk og jafnaldra. Börn fá ekki heimsóknir og mörg voru vistuð þar ein án samneytis við önnur börn.

Ítarlegri líkamsleit

Umboðsmaður finnur einnig að því að börn hafi ekki fengið nægilegar upplýsingar um réttindi sín við vistun. Flest þeirra sem rætt var við höfðu ekki fengið kynningu á úrræðinu, réttindum sínum eða hvernig þau gætu kvartað.

Líkamsleit á börnum var framkvæmd á ítarlegri hátt en áður, þar sem börnin voru í sumum tilfellum beðin um að afklæðast öllum fatnaði nema nærfötum. Umboðsmaður áréttar að slík inngrip þurfi að vera skýrlega heimiluð í lögum og aðeins framkvæmd þegar brýn nauðsyn krefur.

Myndavélaeftirlit var viðhaft í tveimur klefum og almennum rýmum, án þess að merkingar væru til staðar eða börnum væri skýrt frá því hvernig eftirlitið væri framkvæmt.

Stjórnvöld skuli tryggja viðeigandi úrræði

Í skýrslunni kallar umboðsmaður eftir því að stjórnvöld tryggi viðeigandi úrræði fyrir börn sem þurfa neyðarvistun í samræmi við barnaverndarlög og alþjóðleg viðmið.

Leggur umboðsmaður til að bæta umhverfi, tryggja skýrari reglur um samskipti og upplýsingagjöf og koma á viðeigandi eftirliti með réttindum barnanna.

Samkvæmt alþjóðlegum barnaréttarsamningum og viðmiðum á ekki að vista börn í fangageymslum og kallar umboðsmaður eftir því að stjórnvöld vinni að langtímalausn í málefnum neyðarvistunar barna.

Sem áður segir hefur umboðsmaður barna fjallað um skýrsluna á vef sínum. Í ljósi skýrslunnar ítrekar umboðsmaður barna enn frekar þá afstöðu sína að mennta- og barnamálaráðherra grípi til tafarlausra ráðstafana til þess að þessu úrræði fyrir börn verði lokað. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert