Egill Heiðar Anton Pálsson, nýr leikhússtjóri Borgarleikhússins, segir leikhúsið vera allra. Hann hlakkar ofboðslega til að skapa kraftmikið og gott leikhús og mun halda góðu starfi forvera sinna áfram – meðal annars gagnvart nýrri leikritum og barnastarfi, sem hann segir ómissandi í góðu og heilbrigðu leikhúsi.
„Við ætlum að bjóða öllum inn í leikhúsið okkar. Þeim sem langar að hlæja, þeim sem langar að gráta, þeim sem langar að sjá eitthvað nýtt og þeim sem langar að sjá eitthvað sem er meira krefjandi,“ segir hann í samtali við mbl.is.
Egill tekur formlega við stöðu leikhússtjóra af Brynhildi Guðjónsdóttur í lok apríl.
Hverju ert þú spenntastur fyrir í þessu nýja hlutverki?
„Veistu það er svo margt, nú sný ég heim eftir nánast 25 ár í útlöndum og það er bara mjög spennandi að fá að taka við svona frábæru húsi með svona frábærum starfsmönnum í öllum deildum – sem ég þekki að hluta til og svo eru sumir sem ég þekki ekki.
Ég hlakka ofboðslega til að fá að vinna með þessu góða fólki sem er í Borgarleikhúsinu og svo hlakka ég rosalega mikið til að skapa kraftmikið og gott leikhús fyrir okkar áhorfendur.
Svo er ekkert verra að fá að tala íslensku upp á hvern dag – ef ég kann hana ennþá,“ svarar Egill og hlær.
Hvenær munum við sjá fingrafar þitt á dagskrá leikhússins?
„Það er oft þannig þegar maður tekur við leikhúsi að maður fær fallegan arf og það er að framfylgja því plani sem hefur verið lagt allavega eitt ár fram í tímann. Það geri ég svo sannarlega stoltur – af því að ég hef fengið að kíkja aðeins inn í hvað býður okkar þar – og hlakka til að styðja leikhúsið með það plan og fylgja þeim frábæru sýningum eftir.
Það leikár sem ég kem með kemur þá inn eftir um það bil ár.“
Er ætlunin að vera leikstýrandi leikhússtjóri?
„Nei, ég er ekki þyrstur í slíkt akkúrat núna. Mér finnst alveg nóg þessi gríðarlega ábyrgð sem mér hefur verið falin, og ég ætla að reyna að sinna henni af bestu getu.“
Nú þarf Borgarleikhúsið að hafa 60% sjálfsaflsfé og hefur verið með stórar vinsælar leiksýningar sem halda svo uppi tilraunaverkefnum. Á þínum ferli hefurðu svolítið verið með listræna, tilraunamennsku og framúrstefnusýningar. Muntu horfa til þessara alþýðulegu leiksýninga sem leikhússtjóri?
„Það er ekki bara þessi 60% – sem eiga að vera eigin fjármögnun leikhússins – sem gerir þetta. Leikhúsið er allra. Allir sem greiða skatt eiga rétt á að fá leikhús, þannig að leikhúsið sem slíkt er lýðræðislegt fyrirbæri og á að vera það og stuðla að lýðræðisþróun.
Ég var leikhússtjóri í Tromsø – bæði túrandi leikhús um stærstu fylki Noregs og starfsemis leikhús í Tromsø – og þar gildir sama regla þó að leikhúsið sé fjármagnað um 93%. Þannig að leikhús er allra en hvaða leikhús þér líkar, það þarf að gera greinarmun á því.
Þegar ég verð Borgarleikhússtjóri, þá verð ég Borgarleikhússtjóri allra.
Borgarleikhúsið hefur sinnt sínum skyldum ótrúlega vel – gagnvart nýrri leikritum og barnastarfi, sem er algjörlega frábært og ómissandi í góðu og heilbrigðu leikhúsi – og því ætlum við að halda áfram.
Við ætlum að bjóða öllum inn í leikhúsið okkar. Þeim sem langar að hlæja, þeim sem langar að gráta, þeim sem langar að sjá eitthvað nýtt og þeim sem langar að sjá eitthvað sem er meira krefjandi.“