„Staðan er róleg eins og er, en við búumst við því að farið geti að draga til tíðinda hvað úr hverju,“ sagði Ingibjörg Andrea Bergþórsdóttir, náttúruvársérfræðingur á Veðurstofu Íslands, er mbl.is náði tali af henni í dag og spurði tíðinda af umbrotamálum á Reykjanesskaga.
„Í dag hafa ekki verið mjög margir skjálftar miðað við síðustu daga, hrinan sem verið hefur við Reykjanestá hefur aðeins hægt á sér í dag og skjálftar við Sundhnúkagíga hafa verið eitthvað í kringum 15-16 talsins í dag þannig að landris heldur áfram og við erum bara á tánum,“ segir sérfræðingurinn.
Aðspurð kveður hún rúmmál kviku á að giska í kringum 38 eða tæplega 40 milljónir rúmmetra og sé það mesta rúmmál kviku undir Svartsengi síðan hrinan hófst í desember 2023. „Það er komið upp fyrir það rúmmál sem við höfum áður mælt á svæðinu,“ segir Ingibjörg að lokum, allir viðbragðsaðilar séu upplýstir um stöðuna og allir með sínar áætlanir.