Vilja einkaaðila en skoða aðra möguleika

Eyjólfur segir að fyrst og fremst sé vonast eftir því …
Eyjólfur segir að fyrst og fremst sé vonast eftir því að einkaaðili taki flugleiðina að sér. Samsett mynd mbl.is/Eyþór/Sigurður Bogi

„Auðvitað væri frábært ef það kæmi einkaaðili inn á þessa leið. En það virðast ekki vera forsendur fyrir því,“ segir Eyjólfur Ármannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, um flug til Ísafjarðar.

Blaðamaður mbl.is ræddi við Eyjólf að loknum ríkisstjórnarfundi fyrr í dag.

Óskað eftir að Vegagerðin geri markaðsrannsókn

Segir ráðherrann að óskað hafi verið eftir því að Vegagerðin skoði hvort hægt verði að taka flugleiðina upp sem ríkisstyrkt flug í ákveðnum pakkadíl. Þá yrði haldið áfram að fljúga vél af sömu gerð og flýgur til Ísafjarðar, sem einnig yrði þá notuð í aðrar ríkisstyrktar flugleiðir innanlands.

Segir Eyjólfur að þar gætu legið tækifæri í að efla flug til annarra ríkisstyrktra áfangastaða.

Það þyrfti hins vegar að greina og hefur verið óskað eftir því að Vegagerðin fari í markaðsrannsókn á hvort sá möguleiki sé í boði.

Sammála um að það verði flogið til Ísafjarðar

Eyjólfur segir hins vegar að fyrst og fremst sé vonast eftir því að einkaaðili taki flugið að sér en segir jafnframt að enginn hafi enn sýnt því áhuga.

Nefnir hann einnig að ríkisstyrkt flug til annarra áfangastaða á landinu renni ekki út sumarið 2026, en að sumrinu loknu mun Icelandair hætta að fljúga til Ísafjarðar, og því gæti verið áskorun að stilla hinum ríkisstyrkta pakkadíl saman.

„En við erum sammála um það í ríkisstjórn að það verði flogið til Ísafjarðar eftir næsta sumar.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert