Netárásir hafa verið í brennidepli undanfarin misseri og sennilega hefur álagið hjá netöryggisfyrirtækjum aldrei verið meira en um þessar mundir. Bára Hlynsdóttir frá Giljum í Vesturdal í Skagafirði hefur starfað hjá netöryggisfyrirtækinu Syndis undanfarin tæp fjögur ár og veitir þar stærsta öryggisvöktunarkerfi landsins forstöðu. Hún hleypur nær daglega og fer reglulega heim í sveitina til að hlaða batteríin og kemur margefld til baka.
Bára brauskráðist með BA-gráðu í hagfræði með stjórnmálafræði sem aukagrein og MA-gráðu í alþjóðastjórnmálum, þar sem öryggismál voru í forgrunni, frá Háskóla Íslands auk þess sem hún var í skiptinámi í Skotlandi. Hún vann lengi í fjármálageiranum, í Arion banka og í Borgun í áratug. Þar tók hún meðal annars þátt í örri tækniþróun og var meðal annars eins konar brú yfir til viðskiptavina í þeim tilgangi að láta hlutina ganga upp. Þetta leiddi hana til Syndis.
Álagið er mikið sem og ábyrgðin en Bára tekst lausnamiðuð á við hlutina. „Ég væri ekki í þessu starfi ef ég hefði ekki gaman af því,“ segir hún. „Starfið er krefjandi en ég hef áhuga á því og það hefur tilgang.“ Vinnutíminn geti verið óreglulegur og óvæntur og annað þurfi oft að víkja en tilgangurinn helgi meðalið. Ekki þurfi aðeins að vakta kerfin heldur vera stöðugt á varðbergi vegna nýrra netinnbrotsleiða og undirbúa viðskiptavini fyrir hið óvænta til að bæta stöðugt kerfið, því öryggið sé aldrei 100%. „Vinnan er mjög fjölbreytt og hættir aldrei.“
Bára og Guðni Vignir Samúelsson búa með tveimur ungum sonum sínum í Mosfellsbæ. „Ég ólst upp við að elta kindur um holt og hæðir og hef mjög gaman af því að hlaupa og hjóla,“ segir hún um helstu áhugamálin. Hún fór 16 ára í Menntaskólann á Akureyri og flutti þá í raun að heiman, en hefur haldið uppteknum hætti hvað hlaupin varðar. „Mér finnst mjög gott að komast út í náttúruna og verð frekar eirðarlaus ef ég kemst ekki reglulega út að hlaupa.“
Nánari umfjöllun er að finna í Morgunblaðinu sem kom út fimmtudaginn 13. mars.