Eigendum auglýsingaskiltis sem stendur á jörðinni Kirkjubóli, við nyrðri munna Hvalfjarðarganga, ber að stöðva notkun skiltisins og slökkva á því. Dagsektir að upphæð 150 þúsund krónur sem lagðar voru á falla hins vegar niður. Þetta er niðurstaða úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála.
Byggingarfulltrúi Hvalfjarðarsveitar ákvað 29. nóvember síðastliðinn að slökkt skyldi á skiltinu. Forsvarsmenn S23 ehf., sem eiga og reka skiltið, kærðu þá ákvörðun.
Í gögnum málsins kemur fram að skilti hafi staðið á umræddum stað í 24 ár en í maí 2022 var sótt um breytingu á því í tvíhliða LED-upplýsinga- og auglýsingaskilti með klukku og vindmæli. Umsókninni var hafnað af skipulagsyfirvöldum í Hvalfjarðarsveit í september sama ár. Skiltið var engu að síður reist og töldu umsækjendur að leyfi væri fyrir hendi. Byggðist sú afstaða á samtölum við embættismenn sveitarfélagsins sem hefðu upplýst að til stæði að breyta reglunum.
Nánar má lesa um málið í Morgunblaðinu í dag, laugardag.