Dró son sinn úr skóla eftir alvarlegt atvik

Fyrst var greint frá langvarandi ofbeldisvanda í Breiðholtsskóla í Morgunblaðinu …
Fyrst var greint frá langvarandi ofbeldisvanda í Breiðholtsskóla í Morgunblaðinu 10. febrúar. mbl.is/Karítas

Móðir drengs sem var nemandi í Breiðholtsskóla segist hafa neyðst til að færa hann um skóla eftir alvarlegt atvik á skólatíma.

Drengurinn hafði sótt skólann frá sex ára aldri en ofbeldi og hegðun bekkjarfélaga hans urðu til þess að fjölskyldan fékk nóg og á endanum varð drengurinn að víkja fyrir ofbeldisseggjunum.

Móðirin, sem ekki vill koma fram undir nafni, segir hegðun ákveðinna nemenda innan skólans hafa verið stórt vandamál lengi. Framkoma þeirra hafi skapað óöryggi meðal barna og foreldra og sé svartur blettur á hverfinu og skólanum.

Rétt er að taka fram að ekki er um að ræða sömu móður og steig fram í viðtali á mbl.is fyrr í vikunni og greindi frá ofbeldi nokkurra drengja í sama skóla gegn tólf ára syni sínum.

Börn úti að leika eru ekki örugg

Fyrst var greint frá langvarandi ofbeldisvanda í Breiðholtsskóla í Morgunblaðinu 10. febrúar. Óhætt er að segja að umfjöllunin hafi hrundið af stað mikilli umræðu í samfélaginu og sömuleiðis ýtt við skólayfirvöldum í borginni.

„Það eru alvarleg mál að gerast. Maður þarf að hlúa að sínu barni og forðast það sem hægt er að forðast. Barnavernd hefur verið meðvituð um málið lengi vel og lögreglan líka,“ segir móðirin.

„Þetta er samfélagsvandamál. Það er meira sem gengur á utan skólans heldur en innan skólans. Skólinn getur ekki bjargað öllu.“

Hún segir börnin ekki örugg þegar þau eru úti að leika sér.

Árangurinn ekki sýnilegur

Í yfirlýsingu sem borgaryfirvöld sendu út síðdegis í gær segjast þau hafa gripið til ýmissa ráðstafana vegna eineltis- og ofbeldisvandans í skólanum, en áður hefur komið fram að mun meiri þungi færðist í aðgerðirnar eftir að greint var frá vandanum.

Móðirin segist meðvituð um að einhverjar aðgerðir séu í gangi. Þær hafi samt sem áður ekki enn borið sýnilegan árangur og að úrræðin séu tímabundin.

„Vandinn er orðinn það stór að það þyrfti hreinlega að koma þessum drengjum úr hverfinu.“

Hún segist vita dæmi þess að börn í öðrum skólum í nágrenninu verði einnig fyrir barðinu á hópnum.

„Þetta heldur svo mörgum í gíslingu. Það eru allir voða vanmáttugir. Skólinn þarf að vinna eftir einhverjum reglugerðum. Foreldrar geta takmarkað gert – nema bara það sem snýr að sínu barni. Foreldrar þeirra barna sem þyrftu að grípa inn í gera það ekki.“

Drengurinn var í Breiðholtsskóla en ofbeldið sem þreifst í árgangnum …
Drengurinn var í Breiðholtsskóla en ofbeldið sem þreifst í árgangnum varð til þess að hann þurfti að fara í annan skóla. mbl.is/Karítas

Skólinn brugðist á einhverjum sviðum

Lögreglan hafi einnig takmarkað brugðist við þar sem börnin eru ekki orðin sakhæf. Hún hafi þó aukið eftirlit.

„Venjuleg börn sem komast í kast við lögin – þau gera það og lenda í vandræðum og læra kannski af því. Við erum ekki að sjá það gerast. Af því að þetta eru börn þá má ekkert gera,“ segir móðirin.

„Ég held að skólinn sé búinn að reyna eins og hann getur – þó að hann sé klárlega búinn að bregðast á einhverjum sviðum, en skólinn getur voða lítið gert þegar börn eru valsandi um úti eftir skólatíma. Virða ekki útivistartíma, virða ekki neitt. Skólinn getur ekki brúað það. Þarna eru foreldrar að bregðast og það er þar sem á að grípa þá.“

Vandinn ágerst

Foreldrar í Breiðholtsskóla sem mbl.is hefur rætt við segja ofbeldisvandann hafa versnað undanfarin ár. Aðstoðarskólastjóri skólans hefur einnig sagt hið sama.

„Vandinn hefur ágerst og orðið alvarlegri. Ofbeldistilvikum hefur fjölgað,“ segir móðirin og tekur fram að hún hafi ekki lengur getað treyst því að barnið hennar væri öruggt í skólanum.

Mýmörg dæmi séu um að nemendur leggi á ráðin um að beita aðra nemendur ofbeldi eða ræna þá.

„Þetta er bara það sem er að gerast,“ segir hún. „Ég veit um börn í fleiri en einum skóla og fleiri en tveimur skólum sem hefur verið ráðist á með mjög skömmu millibili.“

Annað hvort verða þau undir eða fylgja

Móðirin tekur fram að vandamálið sé ekki aðeins bundið við Breiðholtsskóla heldur beiti nemendur í fleiri skólum ofbeldi.

„Þetta er rosalegt rótleysi á þessum börnum. Maður er hræddur um að þetta endi með ósköpum. Þetta er svo galið. Þá spyr maður sig bara: Hvar er barnavernd? Hvar eru þeir sem geta hreyft einhverja bolta?

Þessir drengir ná vissum völdum og þannig ná þeir fleiri börnum með sér. Það er þannig að annað hvort verða börnin undir eða þau fylgja. Þannig stækkar hópurinn og völdin eflast hjá þessum börnum.“

Hún segir dæmi um að börn niður í tíu ára aldur séu að hanga með börnum sem séu orðin lögráða, og jafnvel taka þátt í því að beita ofbeldi.

„Það er ekki endalaust hægt að tala um að skólinn grípi alla þessa bolta.“

Látið viðgangast

Hún segir foreldra barna í hverfinu hafa fengið nóg af ástandinu.

„Einhvern veginn er þetta látið viðgangast. Það er vitað af þessum börnum. Ef það væri utanumhald og ef það væri tekið á málum þá stæðum við ekki þarna. Það vantar eitthvað annað.“

Gerir kerfið kannski ekki ráð fyrir svona alvarlegum vandamálum í samfélaginu? 

„Já, ég held að það sé málið. Það á allt að vera svo fallegt og ljúft,“ segir móðirin.

„En þetta er bara hættulegt.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert