Gísli Marteinn hjólar í meirihlutann... og minnihlutann

Gísli hefur lengi verið mikill unnandi hjóla sem og annarra …
Gísli hefur lengi verið mikill unnandi hjóla sem og annarra vistvænna ferðamáta. Hann var nýlega í viðtali í Hjólavarpinu. Ljósmynd/Valdís Þórðardóttir

Gísli Marteinn Baldursson, dagskrárgerðarmaður og fyrrum borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, gagnrýnir boðaðar aðgerðir meirihlutans í Reykjavík er varða íbúðauppbyggingu við Úlfarsfell.

Þetta kom fram í spjalli Gísla Marteins við Búa Bjarmar Aðalsteinsson, hlaðvarpsstjórnanda Hjólavarpsins, en þar var Gísli gestur þáttarins 5. mars.

Dregur úr lífsgæðum íbúa Grafarvogs

„Núna var nýr meirihluti sem er kallaður vinstri meirihluti að komast til valda í Reykjavík og þau ætla að byggja tíu þúsund íbúða hverfi austast í borginni. Það er mjög vond stefna, algerlega glötuð, en þau fá enga gagnrýni fyrir þetta, vegna þess þetta er nákvæmlega það sem minnihlutinn vill,“ segir Gísli.

Nefnir hann að samgöngur hafi verið erfiðari úr Grafarvoginum, þá bæði á Gullinbrúnni til að komast yfir í Ártúnsbrekkuna og svo þegar þangað komið er taki við umferðarteppur.

„Þarna er bara stappað á morgnana sem dregur bara mjög úr lífsgæðum þeirra sem eru þarna“

„Það er bara þessi vítahringur

Segir Gísli að meirihlutinn stefni nú á uppbyggingu 10.000 íbúða hjá Úlfarsfelli sem eigi að hýsa um 20.000 manns.

„Hvernig ætlarðu að koma 20.000 manns í vinnuna þegar Ártúnsbrekkan er þegar full? Einhverjir geta sagt: það er þá Sundabrautin,“ segir Gísli og heldur áfram:

„Allir þeir sem ætla að fara Sundabrautina þurfa þá að keyra þvert í gegnum Grafarvoginn eftir Hallsveginum sem er gata sem bara sker Grafarvoginn í tvennt. Krakkar sem búa öðrum megin við og fara t.d. í Fjölni í íþróttir þurfa að fara yfir Hallsveginn.“

Þá nefnir hann einnig að skólastofnanir séu báðum megin við Hallsveginn sem geri það að verkum að foreldrar þori ekki að senda krakka sína yfir veginn og skutli því sjálfir börnum sínum sem, aftur, búi þá til umferð.

„Það er bara þessi vítahringur.“

Verið að taka af fólki tíma

Segir hann byggðina vera rosalega atlögu að lífsgæðum íbúa Grafarvogar.

„Af því að annaðhvort fá þau þessa umferð í gegnum sig eða sem keppninaut, ef svo má segja, um pláss í Ártúnsbrekkunni á leiðinni í vinnuna. Þannig að leið þeirra í vinnuna lengist um, ég veit það ekki, fimm, sjö mínútur og úr vinnunni líka. Það er bara verið að taka af þér tíma sem þú gætir verið að eyða í ræktinni, eða með sjálfum þér, eða Netflix, eða að elda eða whatever.“

Einkabíllinn á rauða dreglinum

Talið berst seinna að hjólastígum borgarinnar. Segist Gísli vera áhyggjulausari yfir þeim efnum og segir augljóst að haldið verði áfram að gera hjólastíga. Augljóst sé að það verði ekki hægt að hætta við borgarlínuna sem muni tengjast mjög vel inn á hjólastíga.

Aðspurður um þau efni og hvort framhaldið sé þá spurning um tempó frekar en hvort eitthvað verði gert segir Gísli nýjan meirihluta hafa verið á rosalega hægu tempói.

„Það eina sem er verra en meirihlutinn í Reykjavík er minnihlutinn í Reykjavík,“ segir fyrrum borgarfulltrúinn og gagnrýnir áherslur á einkabílinn.

„Það er látið eins og það sé einhver aðför að einkabílnum. Þú veist, einkabíllinn er bara á rauðum dregli.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert