Guðni Th. Jóhannesson, prófessor í sagnfræði við Háskóla Íslands og fv. forseti Íslands, verður prófessor í nafni Jóns Sigurðssonar forseta við Háskóla Íslands frá 1. júlí næstkomandi.
Þetta er ákvörðun rektors HÍ að höfðu samráði við forseta hugvísindasviðs skólans. Starfið byggist á grunni þingsályktunartillögu frá Alþingi árið 2011, á 200 ára fæðingarafmæli Jóns Sigurðssonar og aldarafmæli HÍ. Meðal verkefna prófessorsins eru ráðstefnur og námskeið í sumarháskóla á Hrafnseyri.
„Mér þykir vænt um að taka við þessu merka prófessorsstarfi. Ég hlakka til samstarfs við heimafólk vestra,“ segir í tilkynningu, haft eftir Guðna Th. Jóhannessyni.
Guðmundur Hálfdanarson, prófessor í sagnfræði við Háskóla Íslands, hefur gegnt fyrrgreindu starfi frá árinu 2012. Á þeim tíma hefur hann komið að og styrkt ýmis verkefni í samstarfi við stofnanir og fólk á Vestfjörðum, svo sem fornleifarannsóknir og sumarnámskeið á Hrafnseyri, ráðstefnur á Ísafirði, m.a. í samstarfi við Háskólasetur Vestfjarða, og starfsemi Tungumálatöfra á Ísafirði. Síðustu árin hefur Guðmundur verið formaður Hrafnseyrarnefndar, en hlutverk hennar er að þjóna sem faglegur bakhjarl staðarhaldara á Hrafnseyri í því skyni að starfsemi á höfuðbólinu við Arnarfjörð efli menningu og fræði á Vestfjörðum.
„Það er mikill fengur fyrir Háskóla Íslands að fá fyrrverandi forseta, Guðna Th. Jóhannesson, í þetta hlutverk enda býr hann yfir einstakri þekkingu sem mun nýtast vel,“ segir Jón Atli Benediktsson rektor HÍ.