Ítrekuð rúðubrot í Breiðholti

Þrjár rúðurvoru brotnar á útihurð skólans.
Þrjár rúðurvoru brotnar á útihurð skólans. Ljósmynd/Aðsend

Ítrekaðar skemmdir hafa verið unnar á húsnæði tónskóla Sigursveins D. Kristinssonar í Hraunbergi 2 í Breiðholti á undanförnum vikum.

Í fyrrakvöld voru þrjár rúður brotnar á útihurð skólans og þurft hefur að fella niður kennslu í forskólanum þar sem glerbrot hafa verið út um alla stofu en sjö sinnum á undanförnum vikum hafa rúður í skólanum verið mölvaðar með grjóti.

„Það eru einhverjir sem koma endalaust og grýta steinum í rúðurnar þannig að þær brotna. Það er svo mikill ásetningur í þeim sem gera þetta. Þeir koma aftur og aftur og halda áfram þessum skemmdum,“ segir Júlíana Rún Indriðadóttir, skólastjóri tónskóla Sigursveins D. Kristinssonar, við mbl.is.

Myndavélum loks verið komið upp

Er eitthvað vitað hverjir hafa verið að verki?

„Nei því miður. Við erum ekki með myndavélar úti en þeim hefur nú loksins verið komið upp. Það stendur á rúðunum að skólinn sé vaktaður og hér séu myndavélar en það hefur ekki haft nein áhrif á gerendur. Þetta eru einhverjir krakkar eða unglingar held ég,“ segir hún.

Júlíana segist hafa séð  ummæli eftir að hún skrifaði um málið í færslu á Facebook-síðu  íbúasamtakanna Betra Breiðholt að einhverjir hafi séð til þeirra vera að grýta grjótum í skólann og hlaupa svo yfir í sundlaugina og leika sama leik þar. Tónskólinn er staðsettur á torgi við Gerðuberg þar sem eru búðir og heilsugæsla  og segir Júlíana að enginn hafi orðið fyrir þessum skemmdarverkum nema tónskólinn.

Ítrekað hefur grjótum verið grýtt í rúður skólans.
Ítrekað hefur grjótum verið grýtt í rúður skólans. Ljósmynd/Aðsend

„Ég ætla að hafa samband við starfsmenn laugarinnar til að athuga hvort þeir eigi eitthvað myndefni en á þessu stigi er ekki vitað hverjir þetta eru,“ segir Júlíana.

Fólki finnst þetta ömurlegt og hræðilegt

Hún segist hafa fengið mikil viðbrögð eftir að hún greindi frá þessu á Facebook.

„Ég hef fengið mjög mikil viðbrögð. Fólki finnst þetta ömurlegt og hræðilegt. Maður veit ekki hversu mikið það borgar sig að láta vita en kannski er það betra en ekki. Það geta komið vísbendingar og fólk talar um að myndavélar sé það eina sem dugar og okkur tókst loksins að setja upp myndavélakerfi í gær. Það gæti vonandi hjálpað okkur að sjá hverjir eru að verki ef þetta endurtekur sig sem ég væri ekkert hissa á að gerðist.“

Hafið þið reynt að tala við lögregluna?

„Já já. Ég er búin að hringja þrisvar sinnum og senda pósta. Lögreglan sýnir þessu alveg skilning en getur ekki sent fólk á staðinn til að vakta svæðið. Ég bað lögregluna um að hafa þetta í huga og gefa þessu gaum í eftirlitsferðum sínum um svæðið þar sem þetta hafa verið síendurtekin skemmdarverk,“ segir hún.

Þurft hefur að fella niður kennslu í forskólanum þar sem …
Þurft hefur að fella niður kennslu í forskólanum þar sem glerbrot hafa verið út um alla stofu Ljósmynd/Aðsend

Hún segir í flestum tilfellum eigi rúðubrotin sér stað um helgar enn ekki á skólatíma barnanna.

Hafið þið þurft að bera einhvern kostnað af þessum skemmdarverkum eða sjá tryggingarfélögin um þetta alfarið?

„Við erum með sjálfsábyrgð sem dekkar þetta í hvert skipti. Hún er 42 þúsund krónur í hvert skipti.“

Tónskóli Sigursveins D. Kristinssonar er með tvær starfsstöðvar, við Hraunberg 2 og Engjateig 1 og þá er einnig kennt  í Fellaskóla, Hólabrekkuskóla, Dalskóla, Breiðagerðisskóla og Suðurhlíðaskóla.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert