Jarðskjálftahrinan sem hófst við Reykjanestá á miðvikudag er að fjara út að sögn náttúruvársérfræðings á Veðurstofu Íslands.
„Eins og staðan er núna virðist þessi hrina vera að fjara hægt og bítandi út,“ segir Bryndís Gísladóttir, náttúruvársérfræðingur á Veðurstofunni, við mbl.is en rúmlega 700 skjálftar hafa mælst frá því hrinan hófst á miðvikudaginn.
Bryndís segir að jarðskjálftahrinur á þessi svæði séu algengar en engin merki sjáist í aflögunarmælingum sem bendi til þess að kvikuhreyfingar hafi valdið hrinunni. Síðan 2023 hafa fimm jarðskjálftahrinur orðið á sama svæði og virknin var núna. Síðast var jarðskjálfthrina úti fyrir Reykjanestá í lok desember 2024 þegar skjálftar af svipaðri stærð mældust
Jarðskjálftarnir eru mögulega gikkskjálftar vegna breytinga á spennusviði á Reykjanesskaganum samhliða jarðhræringum þar síðustu ár.
Spurð út í stöðuna við Sundhnúkagígaröðina segir hún:
„Síðastliðinn sólarhring hafa mælst tíu skjálftar við kvikuganginn og landrisið þar heldur áfram svo við fylgjumst vel með stöðunni og erum á tánum. Fyrir síðasta gos í nóvember var mjög lítill fyrirvari og það er alveg viðbúið að svo verði líka núna,“ segir hún.
Rúmmál kviku sem hefur safnast fyrir undir Svartsengi hefur aldrei verið meiri eftir að goshrinan á Sundhnúkagígaröðinni hófst í desember 2023 og eru eldgosin orðin sjö frá þeim tíma.
Síðasta eldgosi lauk 9. desember og eru því liðnir rúmir rúmir þrír mánuðir frá því að gosi lauk. Þetta er lengsta kvikusöfnunartímabil í þessari eldgosahrinu á gígaröðinni en í dag eru 115 dagar frá því síðasta eldgos hófst þann 20. nóvember í fyrra.