Lítil von er til þess að núverandi friðarumleitanir muni skila varanlegum friði í Úkraínustríðinu. Svo segir bresk-rússneski sagnfræðingurinn Sergey Radchenko, prófessor í alþjóðamálum við Johns Hopkins-háskólann, í viðtali við Morgunblaðið. Radchenko var staddur hér á landi í gær og hélt hann m.a. málstofu um stöðuna í Úkraínustríðinu við Háskóla Íslands.
„Við þurfum að leggja til grundvallar hér hver markmið Pútíns eru, og þau eru augljóslega að ná pólitísku valdi yfir Úkraínu og að halda hluta af landinu sem rússnesku landsvæði,“ segir Radchenko. Hann bætir við að Rússar hafi innlimað nokkur héruð Úkraínu og vilji fá þá innlimun viðurkennda, jafnvel þótt rússneski herinn hafi ekki náð að hertaka þau.
„Þannig að hann vill hertaka þau svæði sem hafa verið innlimuð, og hann vill líka ná pólitískri stjórn yfir afganginum af landinu,“ segir Radchenko. Þá hafi Pútín gefið nokkrar yfirlýsingar um að vopnahlé sé ekki í þágu Rússa, þar sem það muni bara gefa Úkraínumönnum tækifæri til þess að ná vopnum sínum.
„Þannig að sérstaklega núna, þegar hann telur að stríðið gangi vel fyrir sig, vill hann halda bardögunum áfram þar til Úkraínumenn samþykkja skilyrði hans, og þau skilyrði verða svipuð því sem Rússar buðu Úkraínumönnum í Istanbúl,“ segir Radchenko og vísar þar til þreifinga Rússa og Úkraínumanna vorið 2022 um vopnahlé. „Og þau skilyrði eru mjög slæm fyrir Úkraínu. Þau eru jafngild því að kúga Úkraínu undir Rússland, að Úkraína glati pólitísku sjálfstæði sínu.“
Radchenko vísar til ummæla Pútíns í fyrradag eftir að hann fundaði með forseta Hvíta-Rússlands, Alexander Lúkasjenkó, þar sem Pútín sagðist vera hlynntur vopnahléi en að það þyrfti að ræða tillögurnar betur áður en hægt væri að samþykkja þær. Þannig setji Pútín skilyrði fyrir vopnahléinu sem geri honum auðveldara fyrir að ná markmiðum sínum. „En þegar kemur að einföldu vopnahléi, eins og því sem Trump sækist eftir, þá hefur [Pútín] augljóslega ekki áhuga á slíku.“
Viðtalið við Radchenko má lesa í heild sinni í Morgunblaðinu í dag, laugardag.