„Ég finn mun á mér eftir þessa dvöl. Þetta er frábær staður, mikil náttúruparadís og mjög vel hugsað um mann. Ég mæli óhikað með þessari meðferð,“ segir Egill Ólafsson tónlistarmaður sem er nýlega kominn heim eftir þriggja vikna dvöl á heilsuhótelinu í Piešťany í norðvesturhluta Slóvakíu. Hann glímir sem kunnugt er við parkinsonssjúkdóminn.
Piešťany er þekkt út fyrir landsteinana fyrir brennisteinsríkt jarðhitavatn sem reynst hefur vel við meðferð á gigt, liðverkjum, vöðvabólgu og öðrum hreyfihamlandi kvillum.
Egill kveðst hafa fundið mun strax eftir fyrstu vikuna, skrokkurinn hafi allur verið betri og krafturinn meiri, auk þess sem röddin styrktist. „Ég hef til dæmis endurheimt hæfileikann til að hósta,“ segir hann sposkur.
„Þetta er auðvitað engin töfralausn, hvað þá lækning, en algjörlega þess virði að fara þangað, út frá minni reynslu,“ segir Egill en það var Runólfur Oddsson, ræðismaður Slóvakíu á Íslandi, sem hafði milligöngu um dvöl hans á staðnum. „Mér skilst að menn séu að byrja að reyna þessa meðferð á parkinsonssjúklingum,“ segir Egill en meðal þeirra sem rannsaka leðjuna sem unnið er með í meðferðarskyni er dr. Erika Halašová, prófessor í líffræði í Martin í Slóvakíu, en hún er jafnframt ræðismaður Íslands þar um slóðir. Segir Egill þau hafa verið boðin og búin að greiða götu sína en hótelið hefur lýst áhuga á því að fá til sín Íslendinga í auknum mæli.
10 steinefnalindir eru í Piešťany, sem í reynd er eyja umlukin ánni Váh, en þær spretta upp gegnum sprungur á jarðvegsflekunum. Dýpt lindanna er allt að 200 metrar. Á yfirborðinu nær hitastig vatnsins 67-69°C, þannig að áður en það er notað þarf að kæla það niður.
Meðferðin í Slóvakíu er margþætt og sniðin að þörfum hvers og eins. Hver gestur hittir lækni við komuna, þar sem hann er metinn og farið yfir þarfir hans áður en meðferðin er ákveðin. Egill segir lækna sem hann hefur hitt hér heima og í Svíþjóð ekki leggja mikla áherslu á mataræði en í Slóvakíu hafi mikið verið lagt upp úr því og hveiti og sykur séu eitur í beinum læknanna á heilsuhótelinu. „Ég var sjálfur búinn að losa mig við sykurinn áður en hef leyft mér tvær brauðsneiðar á viku. Mataræðið sem ég var látinn fylgja þarna úti var frekar einhæft en gerði mér gott. Það var mikill fiskur með roðinu, kjöt tvisvar í viku en án skinns, svo voru það mikil paprika, pekanhnetur, baunaspírur og allskyns kálmeti og rótarávextir sem ég kann ekki að nefna. Þetta er mjög holl fæða og ég lagði af um sjö eða átta kíló.“
Egill stundaði bæði heit böð og leðjuböð í Piešťany, auk nuddmeðferðar og súrefnisinntöku, sem hann hefur mikla trú á. Hann gerir sér ekki grein fyrir því hver þessara þátta hafði mest áhrif á það að honum líður nú betur. „Ætli það sé ekki sitt lítið af hverju, það er samverkandi áhrif. Svo er öll hvíld frá hinu daglega amstri alltaf af hinu góða. Þetta gæti auðvitað verið eins og áhrif af nýjum lyfjum en ég held samt að þetta sé varanlegra en svo.“
Meðferðin byrjaði stundvíslega klukkan 7 á morgnana og var lokið upp úr hádegi. Eftir það var frjáls tími. „Þetta var þétt dagskrá á morgnana en vandist fljótt.“
Hann segir böðin hafa virkað vel á sig, ekki síst leðjuna, og mjaðmarverkur, sem hann þjáðist af, hafi til dæmis alveg horfið. „Hann kom að vísu aftur eftir að ég var kominn heim en er ekki eins slæmur og áður.“
Læknirinn sem sprautaði hann með súrefni tjáði Agli að hann myndi finna mun að þremur vikum liðnum og það stóð heima. „Ég fann fyrir meiri krafti. Mér skilst samt að þessi meðferð virki best á þá sem eru í blóðflokki O plús en ég er í O mínus. Súrefnið er auðvitað viðgerðarefni fyrir líkamann. Læknirinn sem sprautaði mig með þessu er orðinn 82 ára og notar þetta sjálfur annan hvern dag.“
Nánar er rætt við Egil í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins.