Björgvin Sighvatsson, forstöðumaður Lánamála ríkisins, segir það hafa jákvæð áhrif á skuldastöðu ríkissjóðs að verðbólga sé á niðurleið og vextir sömuleiðis. Með minni verðbólgu lækki enda verðbætur sem ríkissjóður þarf að greiða af verðtryggðum lánum.
Fjallað er um skuldastöðu ríkissjóðs í Morgunblaðinu í dag. Þar eru meðal annars bornar saman ríkisskuldir í febrúar 2020, mánuðinum áður en farsóttin hófst, og í febrúar á þessu ári. Undirstrikar sá samanburður hversu mikið ríkisskuldir hafa aukist eftir farsóttina.
Spurður hvort það sé ekki jákvætt fyrir skuldastöðu ríkissjóðs að verðbólgan skuli vera á niðurleið, eins og raunar vextirnir líka, segir Björgvin svo vera. Hann nefnir að lækkun nafnvaxta hafi sérstaklega áhrif á skammtímafjármögnun ríkissjóðs en staða ríkisvíxla er nú um 170 milljarðar króna.
Stefnt sé að því að gefa út ríkisskuldabréf fyrir 180 milljarða króna á þessu ári.
Nánar má lesa um málið í Morgunblaðinu í dag, laugardag.