„Parkinson er þeirrar gerðar að hann vill leggja mann að velli. „Parkinn“ vill parkera manni, eins og ég segi. Því verður maður að andæfa. Og það hef ég sjálfur gert,“ segir Egill Ólafsson tónlistarmaður sem er staðráðinn í að gera allt sem í hans valdi stendur til að hægja á sjúkdómnum sem hann greindist með fyrir fimm árum.
Að sögn Egils er sjúkdómurinn harður húsbóndi og heldur mönnum við efnið.
„Þetta hefur verið heilmikil vinna en vel þess virði; ég er nefnilega ekki í neinum vafa um að allt hefur þetta í sameiningu orðið til þess að hægja á sjúkdómnum,“ segir Egill en meðal þess sem hann hefur gert er að taka mataræðið í gegn, hætta að neyta áfengis og stunda markvissa og góða hreyfingu. Þá segir hann læknavísindin hafa margt fram að færa, svo sem hin ágætustu lyf, en einnig hefur hann reitt sig á fyrirbænir.
Rætt er við Egil í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins.