Tekið var til óspilltra málanna á Húsavík í eftirmiðdaginn í gær við að raða þar saman einingum sem verða sex íbúða raðhús við götuna Lyngholt þar í bæ. Þessi hús eru byggð fyrir Bjarg – íbúðafélag hjá SG-húsum á Selfossi, hvar löng reynsla og þekking er á verkefnum af þessum toga. Húsin voru sett saman í einingar og hver íbúð er tvær slíkar. Kubbarnir voru svo settir á flutningavagna og síðdegis á fimmtudag var lagt af stað norður í land með farminn.
Hver íbúð í lengjunni er 96 fermetrar og svefnherbergin eru þrjú. Á staðinn koma húsin frágengin að utan og að innan með helstu innréttingum. Uppsetning og frágangur nyrðra gæti tekið þrjár vikur.
„Forsvarsmenn Bjargs höfðu samband og kynntu hugmyndir sínar. Það voru skissur sem við gátum lagað að okkar teikningum og svo var hafist handa. Þetta hefur verið fimm mánaða verkefni hér í trésmiðju okkar og mikið að gera,“ segir Hjálmar Jónsson, verkefnisstjóri hjá SG-húsum.
Bjarg – íbúðafélag og SG-hús hafa átt með sér margvíslegt samstarf á undanförnum árum. Þar má nefna byggingu tveggja fjölbýlishúsa úr timbureiningum. Annað var 28 íbúðir og er á Akranesi og 24 íbúðir eru í sambærilegri byggingu á Selfossi. Á minni skala og færri íbúðir eru í raðhúsum sem fyrirtækið byggði fyrir Bjarg í Hveragerði, á Hellu og Hvolsvelli.
„Næsta verkefni hjá okkur fyrir Bjarg er bygging á tveimur 12 íbúða fjölbýlishúsum sem verða í Mosfellsbæ og tilbúin í september,“ segir Baldur Pálsson framkvæmdastjóri SG-húsa.
Flutningarnir á húsunum norður til Húsavíkur gengu eins og í sögu. „Svona verkefni er auðvitað púsluspil og landslið vöruflutningabílstjóra var kallað til,“ segir Kristján Ingi Vignisson hjá JÁ-verk sem stýrði flutningunum norður.
Bílarnir sem notaðir voru komu frá ýmsum fyrirtækjum. Fyrir lestinni fóru lögreglubílar með blikkandi ljósum og svo var þrædd leið frá Selfossi um Óseyrarbrú og Ölfus; svo farið um Þingvelli og Kjósarskað og ekið fyrir Hvalfjörð. Fyrir norðan var farið úr Eyjafirði um Víkurskarð. Allt var þetta gert til þess að forðast skilti, raflínur og fleira slíkt sem fyrirstöður gátu verið.
Nánar má lesa um málið í Morgunblaðinu í dag, laugardag.