Segir sjúkraflug á Húsavík í uppnámi

Ekki stendur til að endurnýja samningin og því er ekkert …
Ekki stendur til að endurnýja samningin og því er ekkert áætlunarflug til Húsavíkur. mbl.is/Sigurður Bogi

Frá og með deginum í dag er ekkert áætlunarflug til Húsavíkur. Sveitarstjóri Norðurþings vill að ríkið komi að borðinu svo hægt sé að koma Húsavíkurfluginu aftur á loft með hagkvæmum hætti. Hún hefur áhyggjur af því að sjúkrafluginu verði stefnt í hættu þar sem erfiðarar verður að halda flugvellinum opnum.

Samn­ings­tíma Norlandair og rík­is­ins um flug milli Reykjavíkur og Húsa­vík­ur lauk í dag, 15. mars. Ekki stendur til að endurnýja samningin og því er ekkert áætlunarflug til Húsavíkur.

„Það er bara mjög bagalegt að það sé ekki áætlunarflug á Húsavíkurflugvöll,“ segir Katrín Sigurjónsdóttir, sveitarstjóri Norðurþings en hún telur Húsavíkurflugið vera gríðarlega mikilvægan samgöngumáta fyrir fólk á Norðausturlandi.

Katrín Sigurjónsdóttir, sveitarstjóri Norðurþings.
Katrín Sigurjónsdóttir, sveitarstjóri Norðurþings. Mynd/Guðmundur Hilmarsson

Sjúkraflug í hættu þar sem völlurinn verði sjaldnar opinn

„Okkur finnst það líka setja sjúkraflug í uppnám. Það eru minni líkur til þess að hægt verður að halda vellinum opnum ef það verður ekki reglulegt áætlunarflug á völlinn,“ bætir sveitarstjórinn við.

Næsta áætlunarflug til Reykjavíkur er þá að finna á Akureyri, en þangað er klukkutíma akstur og Katrín bendir einnig á að það bætist við einn og hálfur tími til viðbótar ef ekið er frá Raufarhöfn.

„Þetta er ekki bara fyrir Húsavík og nágrenni heldur fyrir miklu miklu stærra upptökuvæði,“ segir hún.

Vilja stærri vélar

Nor­landa­ir hefur sagst til­búið að halda áfram með flug­ferðirn­ar en það þurfi til þess áfram­hald­andi fjár­stuðning rík­is­ins.

Samkvæmt fundargerð byggðaráðs Norðurþings frá því í febrúar var flugs­ins hafi verið góð. Þar sagði að lítið vantaði upp á til að tryggja að flug sé til Húsa­vík­ur allt árið um kring.

Katrín telur að ríkið þurfi að koma að rekstri innlandsflugsins með hagkvæmum hætti, þar á meðal með fjárstyrk en helst þurfi að sjá til að það það borgi sig að reka þessa flugleið flugleiðarinnar.

Hagsmunaaðilar áttu í síðustu viku fund með Eyjólfi Ármannssyni, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, þar sem Húsavíkurflugið var rætt.  

„Okkur fannst fyrir og eftir það samtal að það væru mikil tækifæri í innanlandsflugi í heild,“ segir Katrín og nefnir að Húsavíkurflugið hafi á síðustu mánuðum verið rekið með níu sæta vélum.

Það sé ekki hægt að koma út í gróða á svona litlum vélum á þessum flugleiðum. Það þurfi stærri vélar og hagkvæmari rekstrarkosti.

„Það er það sem okkur finnst að ætti að skoða. Hvort það sé ekki hægt að koma þessu þannig fyrir að þetta sé ekki alltaf í uppnámi, það sé ekki alltaf verið að berjast fyrir tilvist þessa innanlandsflugs,“ segir hún.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert