„Þetta er einn liður sem við þurfum að horfa í. Við erum í hagræðingu, ekkert öðruvísi en önnur sveitarfélög,“ segir Þór Sigurgeirsson, bæjarstjóri á Seltjarnarnesi.
Ákveðið hefur verið að skerða vinnutíma yngri krakka í vinnuskólanum á Seltjarnarnesi í sumar. Ungmenni sem fædd eru árin 2010 og 2011 fá vinnu í 3,5 klukkustundir á dag, fjóra daga vikunnar í þrjár vikur. Það er helmingi minna en í fyrrasumar þegar sami aldurshópur, 8. og 9. bekkur, fékk vinnu í sex vikur. Krakkar sem voru í 10. bekk í vetur fá fullan vinnudag í sex vikur.
Þór segir að vinnuskólinn sé á sumarleyfistíma landsmanna og hafi meðalþátttaka ungmenna verið um 50-60% þó vissulega hafi einhverjir verið með fulla mætingu. Því hafi verið ákveðið að gera þá breytingu að bjóða upp á tvö þriggja vikna tímabil þar sem ungmenni velja annað hvort.
Kveðst hann telja að svipað fyrirkomulag sé í höfuðborginni.
Nánar má lesa um málið í Morgunblaðinu í dag, laugardag.