Ríkissaksóknari hefur á nýjan leik gert lögreglustjórann á höfuðborgarsvæðinu afturreka með þá ákvörðun sína að hætta rannsókn á ólöglegri fjársöfnun og meintum mútugreiðslum Solaris-samtakanna til erlendra aðila, í því skyni að liðka fyrir brottflutningi fólks frá Gasa til Egyptalands og þaðan til Íslands.
Forsaga málsins er sú að Einar S. Hálfdánarson lögmaður kærði þær Semu Erlu Serdaroglu og Maríu Lilju I.Þ. Kemp fyrir meinta refsiverða fjársöfnun samtakanna sem þær voru í forsvari fyrir sem og fyrir mútugreiðslur til erlendra opinberra starfsmanna.
Í bréfi ríkissaksóknara til kæranda er m.a. greint frá framburði þeirra Semu og Maríu í yfirheyrslu hjá lögreglu þar sem þær vísuðu því á bug að hafa mútað erlendum aðilum í því skyni að koma fólki yfir landamærin til Egyptalands frá Gasa. Hins vegar hafi palestínskri ferðaskrifstofu verið greitt fyrir að koma fólkinu yfir landamærin og var gjaldið 5.000 bandaríkjadalir fyrir fullorðna, en 2.500 dalir fyrir börn. Var framvísað kvittunum frá ferðaskrifstofunni því til stuðnings.
Finnur ríkissaksóknari að því við lögreglu að þær Sema og María hafi ekki verið spurðar út í samvinnu þjónustuaðilans og tengiliða sem starfa með stjórnvöldum í Egyptalandi og Ísrael, þrátt fyrir að fullt tilefni hafi verið til þess.
Þá segir ríkissaksóknari að furðu veki að lögreglan hafi ekki spurt Semu út í hvernig fjársöfnun samtakanna hafi samrýmst lögum um opinberar fjársafnanir, þar sem fjármunir hafi haldið áfram að streyma inn á söfnunarreikning samtakanna, þrátt fyrir að söfnuninni hafi verið sagt lokið.
Nánar má lesa um málið í Morgunblaðinu í dag, laugardag.