2,4 milljónir króna söfnuðust á Græna deginum sem haldinn var 2. mars síðastliðinn í minningu Jökuls Frosta Daníelssonar sem var aðeins fjögurra ára þegar hann lést af slysförum fyrir tæpum fjórum árum síðan.
Faðir Jökuls Frosta, Daníel Sæberg Hrólfsson, var staðráðinn í að nýta þann sára harm sem fylgdi sonarmissinum til að láta gott af sér leiða og halda minningu sonar síns á lofti um ókoma tíð.
Þetta var í annað sinn sem haldið var upp á Græna daginn í minningu Jökuls Frosta og 1. mars frá klukkan 20.08 voru öll auglýsingaskilti á höfuðborgarsvæðinu tileinkuð minningu Jökuls Frosta í átta mínútur, því að hann hefði orðið átta ára í ár.
„Söfnunin gekk mjög vel. Í fyrra söfnuðust um 1,2 milljónir króna svo við erum virkilega ánægð með að hafa tvöfaldað þá upphæð. Við stefnum á að gera þetta að árlegum viðburði,“ segir Daníel við mbl.is.
Hann segir að hugmyndin að deginum sé að safna fjármunum fyrir börn og unglinga í sorg en allur ágóði rennur til Arnarsins, minningar og styrktarsjóðs. Styrkurinn verður afhentur Erninum á miðvikudaginn.
„Þessi fjárhæð nýtist fyrir börn og unglinga sem misst hafa einhvern náin ástvin. Örninn stendur fyrir samverustundum einu sinni í mánuði, er með sorgarverkefni fyrir börnin og fyrirlestra og fræðslu í kringum sorg fyrir fullorðna og margt annað,“ segir Daníel.