Á Völlunum í Hafnarfirði býr Vestfirðingurinn Linda Sólrún Jóhannsdóttir ásamt dóttur sinni Ásthildi Dögg. Linda varð fyrir súrefnisskorti í fæðingu og það sama gerðist þegar dóttir hennar fæddist. Mæðgurnar eru báðar greindar með CP-hreyfihömlun og nær fötlun þeirra aðallega til fótleggja, en Ásthildur er einnig með skerta hreyfigetu í annarri hendi. Mæðgurnar láta sína fötlun ekki stoppa sig í lífinu og horfa bjartsýnar fram á veginn.
Linda fæddist á sjúkrahúsinu á Ísafirði árið 1988, fyrsta barn móður sinnar.
„Þegar mamma var að fæða mig gekk fæðingin mjög illa og foreldrar mínir hafa sagt mér frá því að það var einhver ágreiningur um hvað ætti að gera. Ég var svo tekin með sogklukku og varð fyrir súrefnisskorti sem hafði áhrif á heilastarfsemi og því fékk ég CP-lömun í fæturna. Þetta hafði líka áhrif á aðra höndina en mér hefur tekist að þjálfa hana upp,“ segir Linda og útskýrir að CP skiptist í þrjú stig eftir alvarleika afleiðingana; tvenndarlömun, helftarlömun og fjórlömun sem er alvarlegasta formið af CP.
Ásthildur litla fæddist 24. mars 2020, í fyrstu bylgju covid. Þá var spítalinn búinn að setja afar strangar reglur og fékk Linda til að mynda ekki að koma upp á spítala þrátt fyrir verki í marga sólarhringa.
„Við vorum búin að reyna í eitt og hálft ár að verða ólétt. Meðgangan gekk ótrúlega vel og ég var ekki með neina verki, enga grindargliðnun eða neitt. Ég var alltaf að biðja um að fá að fara í keisara því ég var alla meðgönguna með þá tilfinningu að eitthvað myndi gerast. Ég talaði við þrjá fæðingarlækna og sagði þeim frá því,“ segir Linda, en henni var neitað um valkvæðan keisaraskurð því ekkert benti til að þess þyrfti.
„Ég var svo með hríðir í þrjá sólarhringa heima og af því að það var covid mátti ég ekki koma fyrr en það væru bara nokkrar mínútur á milli hríða. Ég hringdi oft og spurði hvort ég mætti koma en fékk alltaf sama svarið. Eftir þrjá svefnlausa sólarhringa sagði ég þeim að ég væri orðin mjög þreytt og fékk þá að koma. Þá var ég komin með þrjá í útvíkkun þannig að ég var varla farin af stað. Björgvin barnsfaðir minn beið úti í bíl út af covid, en hann mátti ekki koma inn. Hann fékk svo að koma inn klukkutíma seinna og ég fékk mænudeyfingu,“ segir hún, en einhverjum átta tímum síðar fær Linda mikla rembingsþörf og var þá drifin upp á bekk í skoðun.
„Þá finnst ekki hjartslátturinn. Ljósmóðirin hringdi bjöllu og herbergið fylltist af konum að leita að hjartslætti, en þegar hann fannst ekki var mér rúllað inn á skurðstofu í bráðakeisara. Björgvin stóð bara einn eftir og vissi ekki hvað hann ætti að gera, alveg í losti. Ég var hágrátandi enda hélt ég að hún væri farin,“ segir Linda og strýkur tári af hvarmi, enda tekur á að rifja upp þessa atburði.
„Ég var svo bjúguð að það tók langan tíma að svæfa mig en það náðist á endanum. Svo var skorið, án alls undirbúnings. Ásthildi var náð út á einni mínútu og var ekki blá en mjög veikluleg. Það fannst mjög vægur hjartsláttur og hún var sett í kælikassa til að vernda heilann. Ég vaknaði tveimur tímum seinna og fór inn á vökudeild að sjá dóttur mína,“ segir Linda.
„Það var mikið sjokk að sjá hana þar, alla út í snúrum. Ég man rosalega lítið eftir þessu tímabili, en síðar komu læknar og hjúkrunarfólk inn til mín og sögðu að þetta liti ekki vel út. Þau vissu ekki hvort hún myndi lifa nóttina af og voru svartsýn. Þau buðu mér prest sem myndi koma að skíra, en við vorum þá ekki búin að ákveða nafn. En mér fannst hún líkjast svo systur minni og ömmu. Björgvin vildi að hún héti eftir systrum mínum og fékk hún þá þeirra nöfn, Ásthildur Dögg,“ segir hún og segist sjálf ekki muna eftir skírninni.
„Ég man ekkert því ég var í svo miklu sjokki og sjálf nýkomin úr bráðakeisara. Þetta var mjög dramatískt.“
Linda segir læknana hafa sagt sér að heilastarfsemin væri ekki eins og hún átti að vera, nýrun störfuðu ekki eðlilega og hjartað væri veikt.
„En eftir sólarhring sást munur; hún var að berjast frá fyrsta degi. Hún fór að geta nært í gegnum sondu og eftir því sem tíminn leið varð sterkari von um að hún myndi lifa af. Hún var tekin úr kælikassanum og það kvöld fékk ég að halda á henni, þá á fjórða degi. Þegar ég hélt á henni þá blánaði hún allt í einu, en súrefnið hafði dottið út en hún var öll í snúrum. Ég panikaði algjörlega og henti barninu í hjúkkuna og hljóp út. En þá kom í ljós að hún náði að anda sjálf og læknirinn róaði mig niður,“ segir hún.
„Á fimmta degi verður Björgvin veikur og var þá kominn með covid. Hann komst í fréttirnar sem faðirinn sem lokaði alla feður út úr fæðingardeildinni,“ segir hún og hlær.
„Ég mátti svo taka Ásthildi heim eftir þrjár vikur, en hún var þá hætt að fá flog sem hún fékk í byrjun,“ segir Linda og segir læknana þá hafa grunað að hún væri með CP.
„Ásthildur er mjög glöð stelpa og á góða vini. Hún getur labbað, en ekki eðlilega, en hún fór að ganga mjög seint.“
Er það tilviljun að þið lendið báðar í því sama í fæðingu?
„Já, það er algjör tilviljun.“
Ítarlegt viðtal er við Lindu í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins um helgina.