Vekja athygli á langvarandi afleiðingum Covid-faraldursins

Fólk er hvatt til að mála steina, skrifa á þá …
Fólk er hvatt til að mála steina, skrifa á þá uppbyggileg skilaboð og skilja þá svo eftir á almannafæri. Ljósmynd/Aðsend

Í dag er alþjóðlegur dagur Long Covid og mun því ME-félagið taka þátt í alþjóðlegu átaksverkefni út mánuðinn en það er gert til þess að vekja athygli á alvarlegum áhrifum Long Covid, meðal annars á börn.

Átaksverkefni ber heitið Long Covid Rocks og er markmið þess að draga fram í dagsljósið þær áskoranir sem börn með Long Covid standa frammi fyrir auk þess að bæta skilning almennings og hvetja hið opinbera til aðgerða.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá ME-félaginu.

Faraldurinn haft langvarandi áhrif

Segir þar að eftir Covid-faraldurinn hafi börn glímt við langvarandi veikindi sem hindri þau í að sækja skóla og taka þátt í daglegu lífi. Þá séu mörg hver föst heima eða í sérúrræðum vegna veikinda sinna.

Segir í tilkynningunni enn fremur að þrátt fyrir alvarleika málsins hafi umfjöllun og viðurkenning á vandanum verið takmörkuð og skortir mikið á aðgerðum til stuðnings þeirra barna.

Ljósmynd/Aðsend

Hvetja fólk til að skrifa uppbyggjandi skilaboð

Því hvetur ME félagið almenning til þess að taka þátt í átakinu með eftirfarandi hætti:

Mála steina og skrifa á þá uppbyggjandi skilaboð eða setningar sem vekja athygli á Long Covid, t.d. „Long Covid skiptir máli“, „Börn með Long Covid“ eða „Sýnum stuðning“.

Skilja steinana eftir á almannafæri, svo sem í almenningsgörðum, við skóla eða göngustíga. Það er gert til að vekja athygli á málefninu og skapa umræðu.

Deila myndum af steinum sem þú staðsetur eða rekst á á samfélagsmiðlum með myllumerkjunum: #LCKRocks, #MyLongCovidRock, #LCSteinninnMinn, #EftirstodvarCovid.

Ljósmynd/Aðsend

Alvarlegt heilbrigðisvandamál sem þurfi að auka skilning á

„Long Covid er alvarlegt heilbrigðisvandamál sem hefur haft veruleg áhrif á líf fjölda barna og fjölskyldna þeirra. Skilningur á stöðu þessara barna er mjög takmarkaður og úrræði á vegum þess opinbera fá. Mörg þessara barna og fjölskyldur þeirra þurfa að berjast fyrir viðurkenningu á veikindunum.

Með þátttöku í Long Covid Rocks vill ME-félagið vekja athygli á þessum alvarlega vanda, auka umræðu og stuðla að breytingum í samfélaginu,“ segir í tilkynningu félagsins og er þar jafnframt bent á að allir geta tekið þátt.

Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert