Það lítur út fyrir að það sé almennt vilji til að finna einhverja lausn þar sem ekki er verið að raska stóru samfélagsverkefni sem er öllum bæjarbúum mjög mikilvægt.
Þetta segir Hildur Dagbjört Arnardóttir, formaður Gróanda á Ísafirði, samfélagsverkefnis um ræktun í þágu bæjarbúa en nýlega tjáði hún sig í myndbandi á samfélagsmiðlum um fyrirætlanir um uppsetningu kláfs í bænum á lóð sem Gróandi hefur haft sína starfsemi á í níu ár.
Hildur segir í samtali við mbl.is að mjög fljótlega eftir að hún setti myndbandið út hitti hún bæjarstjóra og svo stjórnarmann úr Eyrarkláf.
Í kjölfar þess var hún með opin fund fyrir fólkið í Gróanda sem hún segir að hafi haft áhyggjur og alls konar spurningar þar sem allt í einu sé verið að stinga upp á einhverjum plönum á svæðinu þar sem ræktunin hefur farið fram.
„Það var mjög hjálplegt. Stjórnarmaðurinn sem ég ræddi við hjá Eyrarkláf kom á þann fund og svaraði spurningum. Það var fullt var út úr húsi á fundinum og þurfti að loka mælendaskrá eftir tveggja klukkustunda umræðu,“ segir Hildur.
Segir hún marga geta haldið að auðvelt sé að flytja ræktunarverkefni, það sé bara hægt að moka upp moldinni og setja hana niður annars staðar.
„Það er ekki auðvelt að flytja þetta. Þetta er eitthvað sem er þarna og hefur þróast í áratug. Ef við leyfum því ekki að vera þarna þá eru það bara gæði sem við missum.
Þetta er einnig spurning um að samfélagið finni fyrir því að borin sé virðing fyrir samfélagsverkefnum.“
Gróandi er að sögn Hildar rekinn eins og björgunarsveitirnar og engin takmörk fyrir því hverjir séu hluti af Gróanda.
Öll börn á Ísafirði munu taka þátt í ræktun í vor og þá seir hún hvern sem er geta komið og tekið þátt í ræktuninni og uppskorið en verkefnið er fjármagnað af stuðningsaðilum. Tvisvar í viku er hægt að fá aðstoð hjá starfsfólki Gróanda á svæðinu.
Hildur segist ekki vita til þess að neitt annað verkefni sé rekið á þennan hátt í heiminum. Hún er menntuð sem landslagsarkitekt og segir hægðarleik að koma bæði kláf og starfsemi Gróanda fyrir á sama svæði.
„Fyrir mér er svæðið flennistórt og ég þarf ekki að hafa allt svæðið undir okkar starfsemi.
Þess vegna kom það mér á óvart að búið er að setja deiliskipulagsmörk yfir allt svæðið og meira til.
Deiluskipulagið er bara kallað deiliskipulag fyrir kláf. Þannig er ekki verið að deiliskipuleggja svæðið heldur er verið að ánefna svæði fyrir kláf.“
Spurð um álit íbúa Ísafjarðarbæjar á áformum um kláf í bænum segir Hildur einhverja íbúa fagna áformunum og því að eitthvað sé að gerast í bænum.
Aðrir séu á því að ekki eigi að byggja meira upp fyrir ferðamenn og að varhugasvert sé að raska náttúrunni. Þetta sé fólk sem finnst æðislegt að fá að vera í friði uppi í hlíðinni og að hægt sé að tína bláber án þess að það séu læti í kring.
Þá segir hún að einhverjum finnist meira en lítið undarlegt að kláfur verði ekki frekar settur upp nær skíðasvæðinu og þannig hægt að nota hann til að komast upp með skíði eða hjól.
„Þarna uppi er eiginlega bara útsýnispallur og ekki er hægt að nýta það svæði til útivistar á annan hátt.“
Hildur segir þessi sjónarmið íbúana öll hafi komið fram á fundinum.
Hildur vill taka sérstaklega fram að í spjalli sínu við bæjarstjóra á dögunum hafi komið fram að sveitarfélagið er ekki að reyna að leggja stein í götu Gróanda.
„Þannig að við erum bara að vonast til þess að þetta fari vel og kannski endar þetta með því að Gróanda verði komið almennilega fyrir í aðalskipulagi bæjarins.“