Á að efla varnir Íslands og þá með hvaða móti? Hvernig verður vel stutt við Úkraínu og hverju má kosta til? Er hinum vestræna heimi ógnað úr austri? Stjórnmálamenn voru spurðir.
„Sem herlaus þjóð þarf Ísland að huga að því að geta tekið á móti og þjónað erlendu herliði sem hingað kæmi til varna ef á þyrfti að halda. Nú þegar erum við að sinna því verkefni vel á varnarsvæðinu en á sama tíma eigum við að horfa til eflingar annars viðbúnaðar innanlands sem gagnaðist jafnframt við gerð viðbragðsáætlana, viðbúnaðar og viðbragða við öðrum áföllum,“ segir Víðir Reynisson þingmaður Samfylkingar.
„Íslendingum ber að styðja áfram við Úkraínu eins og þjóðir í Evópu hafa gert alveg frá upphafi innrásar Rússa fyrir þremur árum. Fyrir skemmstu var ég á Nato-fundi úti í Evrópu og þar fann maður að ráðamenn í mörgum ríkjum eru á nálum og óttast hvað orðið gæti í allra næstu framtíð. Sérstaklega er uggur vegna þessa í löndum sem liggja að Rússlandi. Menn telja að Pútín muni ekkert endilega staðnæmast í Úkraínu heldur haldi lengra inn í Evrópu ef honum sýnist svo,“ segir Sigmar Guðmundsson þingmaður Viðreisnar.
„Við eigum tvímælalaust að treysta enn betur samstarf okkar við bandamenn okkar í öryggis- og varnarmálum,“ segir Diljá Mist Einarsdóttir þingmaður Sjálfstæðisflokksins. „Einkum á ég þar við Bandaríkin, Bretland og Kanada en að ógleymdu því að við eigum að styrkja samstarf við Norðurlönd og Eystrasaltsríkin. Þá þarf að auka þekkingu á sviði öryggis- og varnarmála. Því fylgir svo að bæta þarf aðstöðu sem nýtist við varnir landsins. Með því öxlum við betur ábyrgð á vörnum okkar og erum áreiðanlegur bandamaður þeirra þjóða sem hafa stofnað til samstarfs við okkur á þessum vettvangi.“
„Grunnstef Íslands í öryggis- og varnarmálum er aðild að NATO og varnarsamningurinn við Bandaríkin frá 1951. Þetta eru stoðirnar og að þeim verður að hlúa, burtséð frá því hvernig pólitískir vindar blása. Lykilviðfangsefni stjórnvalda er að meta reglulega hvernig megi fjárfesta í eigin vörnum og þannig treysta enn frekar varnarskuldbindingar,“ segir Ingibjörg Davíðsdóttir þingmaður Miðflokksins.
„Ýmsir telja að nú sé tímabært að horfa í ríkara mæli til Evrópu í tengslum við varnir landsins. Ég tel hins vegar að það sé brýnt að við horfum til þess farsæla samstarfs sem Ísland hefur átt við Bandaríkin frá lýðveldisstofnun áður en stefnubreyting verður gerð. Vissulega eru blikur á lofti og breytingar fram undan en þær snerta ekki okkar öryggis- og varnarhagsmuni,“ segir Lilja Alfreðsdóttir, varaformaður Framsóknarflokksins og fyrrverandi utanríkisráðherra.
Nánar í fimmtudagsblaði Morgunblaðsins.