Eins og að vera með „hýenuhvolpa sem gjamma“

Gunnar Smári líkti þeim Karli Héðin og Trausta Breiðfjörð við …
Gunnar Smári líkti þeim Karli Héðin og Trausta Breiðfjörð við „gjammandi hýenuhvolpa“ í þætti á Samstöðinni í dag er nefnist Synir Egils. Samsett mynd

Trausti Breiðfjörð Magnússon, fyrrverandi borgarfulltrúi Sósíalistaflokksins, segir Gunnar Smára Egilsson varpa fram dylgjum og rangfærslum um sig og æsku sína. Gunnar lét þau orð falla í dag að „ungherrar“ í flokknum hefðu eflaust verið særðir af einelti í uppeldi sínu.

Gunnar Smári er formaður framkvæmdarstjórnar flokksins og var nýlega sakaður um m.a. ofríki og andlegt ofbeldi af Karli Héðni Kristjánssyni, forseta Roða, ungliðadeildar flokksins, sem sagði sig sömuleiðis úr kosningastjórn flokksins.

Einnig hefur Unnur Rán Reynisdóttir, oddviti flokksins í Suðurkjördæmi, sagt sig úr varaformennsku kosningastjórnar og lýst yfir stuðningi við Karl Héðin.

Ganga um mjög viðkvæmir

Á fimmtudag greindi Trausti frá því að framkoma Gunnars Smára hafi haft áhrif á ákvörðun sína í september að segja af sér sem borgarfulltrúi Sósíalistaflokksins.

Gunnar Smári fór yfir umræðu síðustu daga í þættinum Synir Egils á Samstöðinni í dag.

Þar virðist Gunnar vísa til þeirra Trausta og Karls Héðins þegar hann talar um „ungherra“ sem hafi verið særðir af einelti í uppeldi og gangi því um mjög viðkvæmir.

Trausti skrifar á Facebook að Gunnar Smári fari með „fagmannlega spunnar dylgjur um mig og mína æsku“. Auk birtir hann myndskeið af ummælum Gunnars.

Þar segist Gunnari Smára einnig liðið eins og hann hafi verið „hýenuhvolpa sem að gjamma“ í kringum sig þegar gagnrýni fór að berast frá Trausta og Karli, en segir Gunnar að notast hafi verið þá við orðfæri sem væru úr mjög alvarlegum ofbeldismálum gegn konum.

Trausti skrifar enn fremur að „[Gunnar] segist ekki hafa verið í miklum samskiptum við mig en fullyrðir að hann þekki mína æskusögu. Segir að ég sé „særður af einelti í uppeldi“, sé viðkvæmur eftir þau áföll. Útvarpar þessu fyrir framan alla alþjóð.“

„Hvaða Twilight Zone erum við eiginlega komin í?“

„Þetta er auðvitað besta leiðin til að jarða ásakanir um einelti, með því að uppnefna fólk og líkja því við hræætur. Gaman að sjá hversu vel það gengur að sanna frásögn mína um það hvernig „samskipti“ eru stunduð á þessum bæ,“ segir enn fremur í færslu Trausta.

„Ofan á þetta talar meistarinn sjálfur um að fólk sem lendi í einelti geti ekki kallað sig þolendur. Það sé einhvers konar svívirða gagnvart baráttu kvenna gegn ofbeldi. Það er eiginlega súrraelískt að vera kominn í einhverja atburðarás eins og þessa, þar sem maður er sakaður um karlrembu fyrir að greina frá einelti og andlegu ofbeldi. Að Gunnar Smári sé fórnarlamb karlrembu minnar. Hvaða Twilight Zone erum við eiginlega komin í?“

Hér má horfa á þáttinn Synir Egils frá í dag. Umræðan sem fréttin vísar til byrjar á mínútu 29:35. Færslu Trausta má sjá hér að neðan. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert