Eyjabakki mikið skemmdur

Eyjabakki er alls 150 metra löng bryggja og er á …
Eyjabakki er alls 150 metra löng bryggja og er á austurhluta hafnarsvæðisins. Nú auð og umferð bönnuð. mbl.is/Sigurður Bogi

Verulegar skemmdir hafa á síðustu mánuðum komið í ljós á bryggjunni Eyjabakka, sem er austast á hafnarsvæðinu í Grindavík. Þekjan á bryggjunni er brotin og sprungin svo umferð bíla þar er bönnuð.

Þá sýna mælingar að á nokkrum stöðum hefur mannvirkið sigið um nærri 20 cm. Þetta gerðist í skjálftum og kvikinnskoti í janúar á síðasta ári. Sprungur sem þá gengu fram til sjávar ollu miklum skemmdum í austurhluta bæjarins, svo sem á atvinnuhúsum í grennd við fyrrnefnda bryggju.

Ein stærsta verstöð landsins

„Þarna hefur orðið mikill skaði, þó svo enn sé ekki búið að setja verðmiða á hvert tjónið sé,“ segir Sigurður Arnar Kristmundsson hafnarstjóri í samtali við Morgunblaðið. Bætir hann við að starfsmenn Náttúruhamfaratryggingar Íslands séu nú að fara yfir málið, í samvinnu við Grindavíkurbæ og hafnadeild Vegagerðarinnar.

Um hálf öld er síðan Eyjabakkabryggja var útbúin. Vísar nafnið til þess að í eldgosi í Vestmannaeyjum árið 1973 komu bátar þaðan í tugatali til Grindavíkur og voru gerðir út þaðan. Því fylgdi að bæta þurfti aðstöðuna – og nafnið kom þá í raun af sjálfu sér. Alls er bryggjan 150 metra löng; önnur langsíðan er stálþil en tréstaurar á hinni.

„Hér í Grindavík, innst og vestast í höfninni nærri löndunarkrönum fyrir smærri báta, hefur kantur sigið um 43 cm. Stærsti hlutinn, svo sem þær bryggjur þar sem skip koma inn til löndunar og afgreiðslu, er að mestu leyti í lagi. En Eyjabakka þurfum við að skoða betur; höfnina þar sem við gjarnan settum bát og skip sem voru í geymslu eða lágu bundin til langs tíma,“ segir Sigurður hafnarstjóri.

Mikið er umleikis við höfnina í Grindavík um þessar mundir og starfsemi í fiskvinnsluhúsum þar. Munar þá um að þau standa nánast við höfnina og á góðum degi er örstutt á frábæra veiðislóð. Önnur skip, svo sem frystitogararnir, sækja lengra og dýpra. Þeir landa þó í Grindavík, sem lengi hefur verið ein stærsta verstöð landsins þar sem hvað mestur afli berst á land.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert