Fjölskyldur vilja flytja og börn skipta um skóla

Ofbeldisvandinn í Breiðholtsskóla hefur vakið mikla athygli eftir að Morgunblaðið …
Ofbeldisvandinn í Breiðholtsskóla hefur vakið mikla athygli eftir að Morgunblaðið og mbl.is greindu frá málinu í síðasta mánuði. mbl.is/Karítas

Foreldrar barna í Breiðholtsskóla eru mjög áhyggjufullir yfir ástandinu í hverfinu. Hafa þónokkrar fjölskyldur íhugað eða ákveðið að flytja og eru einhverjir þegar búnir að selja húsin sín og kaupa annars staðar á höfuðborgarsvæðinu.

Þá eru dæmi um að börn í hverfinu fái inngöngu í aðra grunnskóla í borginni vegna ofbeldisvandans sem þar þrífst.

Þetta segir Hermann Austmar, faðir tveggja barna í skólanum. Hann og konan hans sóttu nýverið um pláss fyrir börnin tvö í öðrum grunnskóla í Reykjavík og hefur umsóknin verið samþykkt. 

Þolinmæðin á þrotum

Ég held bara að það sé ákveðið vonleysi,“ segir Hermann í samtali við mbl.is.

Hann segist hafa verið mjög bjartsýnn á að ástandið í skólanum myndi breytast en þolinmæðin sé að þrotum komin.

„Ég er hættur að bíða og vona.“

Börnin séu ekki örugg í skólanum

Hermann er einn af fjórum foreldrum sem stigu fram í ítarlegri umfjöllun Morgunblaðsins í síðasta mánuði um eineltis- og ofbeldisvanda í skólanum. 

Hann hefur barist fyrir því í nokkur ár að skólayfirvöld taki mál skólans föstum tökum sem hefur borið takmarkaðan árangur. Þeir foreldrar sem mbl.is hefur rætt við segjast ekki upplifa að börnin þeirra séu örugg þegar þau fara í skólann á morgnanna.

mbl.is/Karítas

Hægara sagt en gert

Hermann hefur um langt skeið íhugað að flytja úr hverfinu eða láta börnin sín skipta um skóla.

Það er þó hægara sagt en gert. Skólarnir sem Hermann hafði samband við voru einfaldlega ekki með laus pláss.

Þrátt fyrir þau skilaboð um að ekki væri unnt að taka við fleiri nemendum skilaði Hermann samt formlegri umsókn fyrir börnin sín í annan skóla í Reykjavík sem var samþykkt í byrjun síðustu viku.

Útlista aðgerðir en Hermann er ekki bjartsýnn

Í yfirlýsingu Reykjavíkurborgar frá því á föstudag útlistar borgin ýmsar aðgerðir sem hún segir skóla- og frístundasvið hafa gripið til vegna vandans sem mbl.is og Morgunblaðið hafa greint frá.

Hermann segir aðgerðirnar skila sér mjög hægt og illa.

„Það er verið að vinna einhverja vinnu en það mun taka tíma að sjá einhvern árangur og það gæti líka farið þannig að það verður enginn árangur. Það væri ekkert nýtt,“ segir Hermann.

Hann tekur fram að ef skólayfirvöld hefðu brugðist fyrr við vandanum með almennilegum hætti þá væri þetta vandamál líklega ekki jafn umfangsmikið og það sem við blasir í dag.

Hermann hefur óskað eftir því að dóttir hans fái kennslu eftir skóla til að vinna upp það nám sem hún hefur misst úr vegna hegðunar- og ofbeldisvanda í árgangnum hennar. Hefur hann það eftir kennara í árgangnum að engin kennsla hafi farið fram fyrstu önn skólaársins.

Þá hefur hann einnig óskað eftir að borgin veiti dóttur hans sálfræðiaðstoð. 

Hann kveðst ekki hafa fengið skýr svör um hvort bregðast eigi við þessu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert