Fjórar líkamsárásir í Reykjavík síðasta sólarhring

Tvær af þessum árásum áttu sér stað í hverfi 105. …
Tvær af þessum árásum áttu sér stað í hverfi 105. Mynd úr safni. Morgunblaðið/Sigurður Bogi

Tveir voru handteknir í Reykjavík í dag vegna hvor sinnar líkamsárásarinnar. Lögreglan hefur alls greint frá fjórum líkamsárásum í borginni síðasta sólarhringinn, þar á meðal einni „stórfelldri“ árás í nótt.

Lögreglu var tilkynnt um líkamsárás í hverfi 105 að því er fram kemur í dagbók lögreglu þar sem sagt er frá verkefnum á milli kl. 5 og 17 í dag.

Einn var handtekinn á vettvangi en sá var í annarlegu ástandi. Lögreglan segir að hinn handtekni hafi verið með fíkniefni á sér og þau voru haldlögð. Hann hafi verið færður í fangaklefa þangað til að hægt er að taka af honum skýrslu vegna gruns um líkamsárás og vörslu fíkniefna.

Önnur árás í 108

Tilkynnt var um aðra líkamsárás í hverfi 108 og var einn handtekinn þar á vettvangi. Hann var einnig í annarlegu ástandi. Sá var svo færður í fangaklefa þangað til að hægt verður að taka af honum skýrslu vegna málsins.

Síðan var tilkynnt um þriðju líkamsárásina auk eignaspjalla, þá í hverfi 113.

Lögregla fór á staðinn og tók framburðarskýrslu af brotaþola. Stuttu síðar voru lögreglumenn í almennu eftirliti í hverfi 112 sem sáu aðila sem var grunaður gerandi í málinu. „Lögreglumenn tóku af honum framburð vegna málsins. Að því loknu var hann frjáls ferða sinna,“ segir í dagbók lögreglu frá kl. 5 -17 í dag.

Stórfelld árás í gær

Fyrr í dag greindi mbl.is frá því að lögreglan hefði stórfellda líkamsárás í hverfi 105 til rannsóknar. Kom þetta fram í dagbók lögreglu frá kl. 17 í gær til kl. 5 í morgun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert