Gagnrýna áform um nýja höfn

Grundartangi.
Grundartangi. Ljósmynd/Faxaflóahafnir

Hörð gagnrýni kemur fram í umsögnum sem hægt er að lesa í skipulagsgátt Skipulagsstofnunar um fyrirhugaða uppbyggingu hafnarsvæðis í landi Galtarlækjar vestur af Grundartanga í Hvalfjarðarsveit. Sveitarfélagið hefur auglýst lýsingu á breytingu á aðalskipulagi vegna þessa.

Gert er ráð fyrir að athafnasvæði og hafnarsvæði verði samliggjandi núverandi atvinnusvæði á Grundartangasvæðinu og höfn og viðlegukantur verði í framhaldi hafnarmannvirkja á Grundartanga, sem eru hluti af Faxaflóahöfnum. Fyrirhugað er að á svæðinu verði starfsemi sem hýsi vörugeymslur, geymslusvæði, léttan iðnað og ýmiss konar þjónustusvæði, t.d. vegna hafnsækinnar starfsemi. Gert er ráð fyrir höfn og viðlegukanti sem muni veita flutningaskipum og skemmtiferðaskipum þjónustu.

Í umsögn Akraneskaupstaðar segir m.a. að það veki nokkra undrun að sveitarstjórn Hvalfjarðarsveitar afgreiði með þessum hætti skipulagslýsingu til umsagnar, án þess að gera tilraun til að meta áhrif hennar á hag Faxaflóahafna eða að ræða á vettvangi eigenda félagsins um að komin sé fram skipulagshugmynd sem gæti breytt verulega starfsumhverfi fyrirtækisins. Það sé skoðun Akraneskaupstaðar að þegar séu til staðar nægjanleg hafnarmannvirki við norðanverðan Hvalfjörð.

Faxaflóahafnir segja m.a. í umsögn að áform um tvær stórskipahafnir í jafnmikilli nálægð og þarna sé um að ræða séu óboðleg. Sú sóun auðlinda og fjármagns sem felist í offjárfestingu í höfnum sé í klárri andstöðu við þau markmið sem stefnt sé að á svæðinu og valdi óþarfa röskun á strandlengjunni.

Umsagnir hafa einnig borist frá landeigendum á svæðinu. Jóhanna Harðardóttir, eigandi Hléseyjar, segir m.a. að um sé að ræða alvarlega árás á nágranna Galtarlækjar sem og alla aðra sem við Hvalfjörð búa. Einkum sé um að ræða alvarlega árás á lífsstíl næstu nágranna Galtarvíkur, jafnt persónulega, félagslega sem og fjárhagslega og muni hún aldrei verða samþykkt af þeim. „Nú er nóg komið!“ segir hún.

Í svipaðan streng taka Sævar Ari Finnbogason og Valgerður Jóna Oddsdóttir eigendur Glóru.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert