Ekki er allt sem sýnist þegar sjónvarp og kvikmyndir eru annars vegar. Augljóslega er mikið af tæknibrellum notað í ævintýramyndum þar sem spúandi drekum eða furðuverum bregður fyrir, en tæknibrellur eru líka mikið notaðar í venjulegum þáttum og kvikmyndum. Blaðamaður settist niður í vikunni með tveimur mönnum sem eru sérfræðingar í tæknibrellum og vinna hjá íslenska fyrirtækinu RVX. Ingólfur Guðmundsson er yfirumsjónarmaður tæknibrellna og Írinn Jan Guilfoyle er framleiðandi tæknibrellna, en hjá RVX vinna hátt í þrjátíu manns og verkefnin eru ekki af verri endanum. Meðal sjónvarpsþátta sem RVX hefur unnið að má nefna The Last of Us, House of the Dragon, The Witcher, The Marvelous Mrs. Maisel og nú síðast Zero Day með Robert De Niro sem er í dag einn vinsælasti þátturinn á Netflix, en Zero Day er pólitískur „þriller“ um fyrrverandi forseta sem tekst á við tölvuárás á Bandaríkin.
„Fyrirtækið hefur unnið að kvikmyndum og í auknum mæli að sjónvarpi vegna allra streymisveitnanna. Við vinnum hér á landi en vinnum í alþjóðlegum iðnaði og erum í samkeppni við fyrirtæki í Englandi og Kanada, en þar eru mörg tæknibrellufyrirtæki. Oftast vinnum við að bandarísku eða bresku efni, fyrir sjónvarpsþætti sem eru í hæsta gæðaflokki. Hér er dýrt að reka fyrirtæki og því getur samkeppnin verið erfið. Það sem við reynum þá að gera er að vera betri en aðrir og það viljum við að kúnninn sjái,“ segir Jan og nefnir að þeim hafi gengið býsna vel að ná til sín eftirsóttum verkefnum eins og Zero Day.
„Flest framleiðslufyrirtæki ráða fleiri en eitt tæknibrellufyrirtæki. The Last of Us réð tíu eða tólf slík til verksins og skipta þau með sér senum, en oftast er eitt eða tvö fyrirtæki ráðandi,“ segir Jan, en þess má geta að sá þáttur fékk hin eftirsóttu Emmy-verðlaun.
„Oftast höfum við verið einn af smærri verktökunum en í Zero Day vorum við ráðandi fyrirtækið, sem var mjög stórt fyrir okkur,“ segir Jan.
Á heimasíðu RVX má sjá ýmsar senur úr myndum og þáttum sem starfsfólkið hefur unnið að í gegnum árin. Þar má sjá heilu þorpin rísa, hallir birtast og alveg nýtt landslag fylla út í skjáinn. Fimmtíu hermenn verða að þúsund og stráfelldum líkum í bardaga fjölgar margfalt. Það vekur eftirtekt hve oft er líka átt við senur sem virðast í raun „venjulegar“ en er samt sem áður mikið breytt með brellum. Jan og Ingólfur sýna blaðamanni nýtt myndskeið sem þeir hafa útbúið sem sýnir tæknibrellur í Zero Day, en það myndband verður fljótlega birt á heimasíðunni. Strákarnir lýsa því aðeins hvernig brellurnar eru unnar og taka dæmi af því að „búa til“ fólk.
„Við búum til tölvulíkan af manneskjunni sem líkir eftir útliti og allri áferð á húð, hári og fötum til dæmis. Svo setjum við inn beinagrind sem gerir okkur kleift að hreyfa manneskjuna nánast eins og strengjabrúðu,“ segir Ingólfur.
„Við reynum að láta fólkið virðast eins raunverulegt og hægt er. Það er líka stundum hægt að fara auðveldari leið með því til dæmis að mynda sama hópinn á tíu mismunandi vegu og blanda því svo saman,“ segir Jan.
„Þetta er mjög margþætt og alltaf dálítið púsluspil,“ skýtur Ingólfur inn í.
Hvað liggur mikil vinna á bak við einnar mínútu senu?
„Það er rosaleg vinna. Á bak við skot sem er í nokkrar sekúndur á skjánum liggur kannski tuttugu daga vinna og stundum meira,“ segir Jan. Á myndbandinu hér fyrir neðan má sjá betur allar tæknibrellurnar í Zero Day.
https://vimeo.com/1065823580?share=copy
En þið hafið ekki fengið að hitta Robert De Niro?
„Nei, við þurftum ekki að fara á settið í þessu tilviki því þetta var tekið upp í Bandaríkjunum og þeir voru með sitt eigið fólk á setti. En sú staðreynd að þeir hafi valið okkur sem aðaltæknibrellufyrirtækið er mjög mikilvægt fyrir okkur. Jafnvel þótt öll svona vinna sé unnin í tölvum og geti í raun verið unnin hvar sem er finnst mörgum þægilegt að hafa fyrirtækin nálægt. Við erum alltaf í baráttu við að ná í kúnna og reiðum okkur mikið á að fólk vilji vinna með okkur aftur og aftur,“ segir Jan.
„Áskoranir eru margar og samkeppnin hörð. Það er í raun ansi magnað að við hér, langt í burtu á Íslandi, höfum getað náð svona langt í þessum bransa,“ segir Jan að lokum.
Ítarlegt viðtal er við Jan og Ingólf í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins um helgina.