Þetta er yndislegt gamalt hús og við nýtum allar vistarverur mjög vel, hvern einasta fermetra, líka undir súð. Þetta er gamla Búnaðarfélagshúsið sem var byggt 1906 fyrir starfsemi félagsins og uppi á þriðju hæð var ritstjóri Búnaðarfélagsritsins Freys með sína aðstöðu, en þar bjó líka fjölskylda. Eftir að Búnaðarfélagið færði sig yfir á Hótel Sögu voru hér til húsa Fósturskólinn og Leiklistarskóli Íslands, en undanfarna tæpa fjóra áratugi hefur skólinn okkar verið hér til húsa,“ segir Margrét Theodórsdóttir skólastjóri Tjarnarskóla þegar hún leiðir blaðamann um hlýlegar vistarverur skólans þar sem brakar í gömlum gólffjölum með sögu.
Tjarnarskóli er einvörðungu fyrir unglingastigið, áttunda, níunda og tíunda bekk, og er sjálfstætt rekinn skóli sem fagnar 40 ára afmæli í dag með viðburði í Iðnó og Tjarnarskólahúsinu. Margrét og María Sólveig Héðinsdóttir vinkona hennar stofnuðu skólann fyrir þeim fjórum áratugum og frá fyrsta degi voru þær saman skólastjórar.
„Við höfðum þann háttinn á að við deildum með okkur störfum, enda mikil vinna að stofna og reka bæði skóla og fyrirtækið sem skólinn er. Við stúkuðum okkur aldrei af, heldur vorum með aðstöðu á kennarastofunni, enda störfuðum við báðar alltaf líka sem kennarar í fullu starfi hér með skólastjórninni. Við María vorum með jafna ábyrgð og gátum alltaf stígið inn í verk hvor annarrar, hvort sem það var kennsla eða annað,“ segir Margrét og bætir við að hún hafi stundum verið í meira en fullu starfi sem kennari við skólann, auk þess að vera skólastýra, og fyrir vikið var hún oft langt fram á kvöld í vinnunni og stundum líka um helgar.
„Þetta hefur verið hugsjónastarf okkar og við María Sólveig vorum saman í þessu til ársins 2000, eða í 15 ár, en þá hætti hún. Ég hélt áfram ein sem skólastýra, en frá upphafi höfum við verið einstaklega heppnar með starfsfólk og hér hefur verið lítil starfsmannavelta. Núna er ég að draga mig út úr þessu smám saman, en tvær konur í kennaraliði mínu, þær Birna Dís Björnsdóttir og Sigurborg Pálína Hermannsdóttir, hafa tekið við skólastjórninni að mestu. Þær ætla að hafa þann hátt á sem við María höfðum og sjá saman um skólastjórnina.“
Margrét segir að hún og María Sólveig muni hvorug hvar fræið byrjaði að spíra, hvernig það kom til að þeim datt í hug að stofna skóla upp á sitt eindæmi.
Nánari umfjöllun er að finna í Morgunblaðinu sem kom út fimmtudaginn 13. mars.