Hvernig er best að verjast netsvikum?

Pósturinn hefur nú sent frá sér upplýsingar um hvernig skuli …
Pósturinn hefur nú sent frá sér upplýsingar um hvernig skuli verjast því að verða fyrir netsvikum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ekkert lát virðist vera á netsvindli þar sem óprúttnir aðilar þykjast vera íslensk fyrirtæki til að svíkja fé út úr fólki. Pósturinn er því miður eitt þeirra fyrirtækja og hefur nú sent frá sér ábendingar um hvernig forðast megi að verða fyrir svikum.

Í tilkynningu frá Póstinum kemur fram að einna helst sé verið að senda fölsuð skilaboð í tölvupósti eða smáskilaboðum og viðtakanda sagt að hann eigi von á sendingu sem ekki hafi verið hægt að afhenda.

Það sé þó einfalt að leysa úr málinu ef viðtakandi smelli á meðfylgjandi hlekk til að ganga frá greiðslu eða gefa upp viðkvæmar persónu- og greiðsluupplýsingar.

Best að fylgjast með sendingum á Mínum síðum

Í tilkynningu Póstsins kemur fram að fyrirtækið svari mörgum fyrirspurnum um netsvindl daglega.

En hvernig er þá hægt að verjast netglæpamönnum sem reyna að svindla á viðskiptavinum?

„Best er að skrá sig á Mínar síður á heimasíðu okkar, posturinn.is, eða í Póst-appið,“ er haft eftir Fanneyju B. Pétursdóttur, þjónustustjóra hjá Póstinum.

„Þar geta viðskiptavinir séð yfirlit yfir þær sendingar sem eru á leiðinni eða gengið úr skugga um að það sé engin sending væntanleg og borið saman sendingarnúmer.“

Skoða netföng, málfar og orðalag vandlega

Þá er viðskiptavinum bent á að skoða netföng sendanda vel og segir í tilkynningunni að netfangið chipslepsz7@hotmail.com sé t.d. netfang sem ætti að hringja viðvörunarbjöllum.

Stundum líkjast netföngin þó netföngum frá viðkomandi fyrirtæki en eru örlítið frábrugðin eins og t.d. með tölustöfum í miðju netfangi eða vefslóð.

Einnig er viðskiptavinum bent á að skoða málfar og orðalag vandlega þar sem mörg svikaskilaboð innihalda stafsetningar- og/eða málfarsvillur sem gefa til kynna að um svik sé að ræða.

„Dæmi um orðalag í svikapósti sem viðskiptavini okkar barst nýlega: „Pakkinn þinn er kominn á vöruhús okkar á staðnum en hefur ekki verið afhentur vegna rangs sendingarheimilis eða ófullnægjandi upplýsinga.“ Svo er hlekkur sem viðskiptavinur er beðinn um að smella á og segir í skilaboðunum: „Svaraðu Y og opnaðu SMS-virkjunartengilinn aftur eða afritaðu tengilinn og opnaðu hann í vafra,“ segir í tilkynningunni.

Aldrei gefa upp kortaupplýsingar eða viðkvæmar persónuupplýsingar

Þá skuli aldrei smella á neina hlekki eða opna viðhengi í auglýsingum, skilaboðum eða tölvupóstum þar sem uppruninn er óljós.

Sömuleiðis skulu ekki gefa upp kortaupplýsingar eða viðkvæmar persónuupplýsingar á borð við kreditkortanúmer, kennitölu, símanúmer og fleira.

Fanney B. Pétursdóttir, þjónustustjóri hjá Póstinum
Fanney B. Pétursdóttir, þjónustustjóri hjá Póstinum Ljósmynd/Pósturinn
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert