Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu er með rán til rannsóknar þar sem manni var ógnað með hnífi.
Heimir Ríkarðsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, segir í samtali við mbl.is að maður hafi mælt sér mót við annan til að kaupa af honum hlaupahjól eftir að þeir höfðu náð samkomulagi um það í gegnum samfélagsmiðla. Þegar maðurinn kom á staðinn var ekkert hlaupahjól til staðar.
Á staðnum hafi verið tveir aðilar og var annar þeirra með hníf sem hann dró upp og heimtaði pening frá manninum.
Heimir segir að þeir hafi tekið tug þúsunda frá manninum en skammt frá staðnum hafi lögregla náð mönnunum og handtekið þá og voru þeir yfirheyrðir í morgun.