Ríkið hefur borgað á sjöttu milljón króna í leigu á ónothæfu húsnæði undir meðferðarheimili sem hefur enn ekki opnað. Auk þess borgar ríkið 1,2 milljónir á mánuði fyrir húsnæðið sem fundið var í staðinn.
Þetta kom fram í kvöldfréttum Rúv í kvöld en meðferðarheimilið Blönduhlíð í Mosfellsbæ hefur enn ekki verið tekið í notkun – og óvíst er hvort þar verði yfir höfuð einhvern tíma meðferðarheimili – þrátt fyrir að Ásmundur Einar Daðason, fyrrverandi barnamálaráðherra, hafi þóst opna meðferðarheimilið fjórum dögum fyrir kosningar í nóvember.
Húsnæðið, sem stendur við Skálatún í Mosfellsbæ, uppfyllir ekki kröfur um brunavarnir og ráðast þarf í miklar breytingar ef svo á að vera. Starfsleyfi er heldur ekki fyrir hendi og húsið stendur enn tómt.
Eins og mbl.is greindi frá í febrúar greiðir Barna- og fjölskyldustofa 750 þúsund krónur í leigu í Blönduhlíð, þótt engin starfsemi sé í húsinu. Ofan á það greiðir hún 1,2 milljónir í leigu á álmu á Vogi, þangað sem starfsemin hefur verið færð. Úrræðið á Vogi gengur nú undir heitinu Blönduhlíð.
Rúv greindi svo frá því í kvöld að í leigusamningnum fyrir Blönduhlíð segi að samningnum megi rifta ef í ljós kemur á fyrstu sex mánuðum leigusamnings að húsið sé ekki hæft börnum af ástæðum sem skrifast ekki á leigutakann. Það var ekki gert og nú er sá frestur liðinn. Enn fremur segir að leigutaki sætti sig að öllu leyti við ástand hússins.
Fram kom að Framkvæmdasýslan - Ríkiseignir hafi ekki haft aðkomu að leigusamningnum eins og venja er fyrir, „sökum neyðarástands í húsnæðismálum meðferðarheimila“. Heldur hafi leigusamningur að Blönduhlíð verið gerður án aðkomu framkvæmdasýslunnar þar sem það taldi það geta tekið stuttan tíma að breyta því í meðferðarheimili.
Blönduhlíð fer þó brátt í notkun en ekki á vegum Barna- og fjölskyldustofu og vitanlega ekki sem meðferðarheimili, að sögn Rúv.