Í nýjasta þætti Spursmála var farið yfir það helsta sem var um að vera á samfélagsmiðlum hjá ráðamönnum þjóðarinnar í vikunni sem nú er að líða undir lok. Þar virtist margt uppi á teningnum en mest fór fyrir veisluhöldum, afmælispartíum og utanlandsferðum líkt og sjá má í meðfylgjandi myndskeiði. Yfirferðinni er einnig gerð skil hér að neðan.
Um síðastliðna helgi fór einmitt fram þingveisla Alþingis sem er aðeins fínna orð yfir árshátíð þó það sé eiginlega bara það nákvæmlega sama. En þangað mættu prúðbúnir þingmenn í miklu stuði ásamt mökum sínum og tjúttuðu fram á rauðanótt. Sjáið myndirnar!
Áslaug Arna og Guðrún Hafsteins grófu stríðsöxina í þingveislu.
Samfó-fjöllan tók fjölskyldumynd.
Guðmundur Ari og frú voru glæsileg.
Hildur Sverris og hennar ektamaður ekki síður glæsileg.
Rósa Guðbjarts átti annasama helgi og fór bæði í þingveislu og árshátíð Hafnarfjarðarbæjar.
Heiða Björg og Alma Möller voru svolítið að vinna með svipað lúkk þegar þær funduðu um ýmis mál sem lúta að velferð íbúa í borginni. Þær eru alltaf jafn smart báðar tvær en margir hafa verið að velta því fyrir sér hvort það fylgi rúðuþurrkur með þessum brillum?
Guðmundur Ari lagði sitt á vogarskálarnar og hjálpaði til við að koma golfvellinum á Seltjarnarnesi í samt lag eftir veðurtjónið sem þar varð.
Vissuð þið að Sigmundur Davíð og Halla Hrund eiga afmæli sama dag? Já, það er bara þannig. Á miðvikudaginn fögnuðu afmælissystkinin afmælisdegi sínum, Simmi Dabbi er nú hálfrar aldar gömul risaeðla eins en Halla Hrund bara 44 ára.
Konur eru konum bestar og það kórónaði Inga Sæland þegar hún sendi valkyrjunum sínum, þeim K-Frost og Toggu klassískan baráttusöng á Facebook.
Það voru einhvern veginn allir og ömmur þeirra í útlöndum í vikunni. Bryndís Haralds var stödd í Litháen vegna einhverra svakalega merkilegra hátíðarhalda.
Nokkrir nýir varaþingmenn tóku sér sæti á þingi í vikunni. Alltaf gaman að sjá ný andlit á þeim vettvangi. Sigurður Örn Hilmarsson leysti Áslaugu Örnu af hólmi, Lárus Guðmundsson kom inn fyrir Begga Óla og hinn eini sanni Sverrir Bergmann fyrir Ásu Berglindi. Hey, Svessi - er nokkuð hægt að fá óskalag?
Sigurður Örn er 1. varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins í Reykjavíkurkjördæmi suður.
Lárus segir það meiriháttar tilfinningu að taka sæti á þingi sem varaþingmaður Miðflokksins.
Sverrir Bergmann á kannski eftir að þenja raddböndin eitthvað í ræðustól Alþingis.
Á meðan herramennirnir voru við þingstörf skelltu þær Þórunn Sveinbjarnardóttir, Ása Berglind og Áslaug Arna sér í skvísuferð til New York og sóttu þar kvennanefndarfund Sameinuðu þjóðanna.
Pawel Bartoszek fór til Noregs með Aðalsteini Leifssyni til að vera viðstaddir landsfund Venstre. Að sjálfsögðu nýtti hann tækifærið og smellti í eina strangheiðarlega sjálfu.
K-Frost fer alveg að taka við af Snorra Mássyni sem virkasti samfélagsmiðlarinn en hún fór til Brussel að skoða höfuðstöðvar Nato á dögunum.
...Manni líður bara eins og það hafi enginn verið eftir hér heima til að stýra landinu.
Smelltu á spilarann hér að neðan til að nálgast nýjasta þátt Spursmála í heild sinni: