Unnur Rán Reynisdóttir, oddviti Sósíalistaflokksins í Suðurkjördæmi og varaformaður kosningastjórnar, hefur sagt sig úr kosningastjórn flokksins. Hún segist hafa heyrt af ásökunum fleiri en eins aðila á hendur Gunnari Smára Egilssyni varðandi framkomu sem fari út fyrir öll velsæmismörk.
Frá þessu greinir Unnur með færslu á Facebook-hópi sósíalista, Rauða þræðinum. Þar lýsir hún yfir stuðningi við Karl Héðin Kristjánsson, forseta ungliðadeildar flokksins, sem sagði af sér formennsku kosningastjórnar á dögunum.
Formenn í stjórnum Sósíalistaflokksins hafa aftur á móti hafnað ásökunum Karls Héðins, þar á meðal Sanna Magdalena Mörtudótti, oddviti flokksins í borgarstjórn Reykjavíkur.
Unnur tekur fram að hún telji ekki að flokkurinn sé í pólitísku sjálfsmorði. Hann verði sterkari og með hreinni samvisku verði unnið rétt úr málum.
„Í ljósi liðinna atburða; ásakana í garð formanns framkvæmdastjórnar Sósíalistaflokks Íslands, viðbragðaleysis flokksins og viðbragða formanna kosninga- og málefnastjórnar og varaformanns framkvæmdastjórnar Sósíalistaflokksins segi ég, undirrituð, mig úr kosningastjórn Sósíalistaflokks Íslands,“ skrifar Unnur.
Unnur segir málið horfa einfalt við sér og hafa gert það frá því í október en þá segist hún hafa heyrt í fyrsta sinn ásakanir fleiri en eins aðila á hendur Gunnari Smára, sem er formaður framkvæmdastjórnar flokksins.
Vörðuðu þær ásakanir framkomu Gunnars, sem Unnur segir hafa farið út fyrir öll velsæmismörk í samskiptum, og launaþjófnað ofan á það. Karl Héðinn sakaði Gunnar um trúnaðarbrot, ofríki og andlegt ofbeldi.
„Þá þegar leitaði ég eftir því að eðlilega yrði brugðist við þessum ásökunum. Það er skemmst frá því að segja að viðbrögðin hafa verið sama sem engin. Davíð Þór Jónsson bauðst til að vera einhvers konar sáttamiðlari en ekkert varð úr því að mér virtist og ábyrgð sett á þolendur.“
Í viðtali við mbl.is, sem birtist á föstudag, bar Karl Héðinn Gunnari Smára ekki vel söguna en þar kom meðal annars fram að reynt hafi verið að halda sáttafund á milli þeirra sem Gunnar Smári hafi neitað að gangast við.
Hafði samband á milli Karls og Gunnars verið stirt frá árinu 2023 en segir Karl að það ár hafi Gunnar tvisvar sinnum neitað að borga Karli mánaðarlaun fyrir vinnu sína á Samstöðinni.
„Það að Sósíalistaflokkur Íslands bregðist ekki við ásökunum um ofbeldi og launaþjófnað þykir mér í besta falli hræsni. Hvað gefur þessi flokkur sig út fyrir að standa fyrir? Stöndum við ekki með þolendum og launafólki? Og þegar hópur fólks sem ég veit ekki betur en gefur sig einmitt út fyrir að trúa þolendum sýnir algjörlega öfuga hegðun, þá veldur það mér meiri vonbrigðum en orð fá lýst,“ skrifar Unnur.
Unnur segir að í aðdraganda vinnufundar sem sneri að hvað flokkurinn gæti lært af liðnum kosningum hafi komið í ljós mikil barátta gegn því að vinna úr reynslunni af kosningunum. Það hefði verið vinna sem hefði átt að fara fram eftir kosningarnar 2021.
Þá telur hún þátttöku á vinnufundinum hafa verið mjög góða og að þrátt fyrir að hann hafi staðið yfir heila helgi hafi verið betri mæting á hann en flesta félagsfundi.
Það skjóti því skökku við að vinnufundurinn hljóti svo harða gagnrýni einungis úr einni átt. Andrúmsloftið hafi verið gott og almenn ánægja með vinnuna.
„Fólk vann faglega og talaði um málefni en ekki í persónuárásum, nema úr sömu átt kom ítrekað mikil gagnrýni á hendur kosningastjórnar. Stjórn sem augljóslega er undir miklum þrýstingi úr þeirri átt um að vinna á ákveðinn máta. Þessar raddir vildu meina, að árangur úr kosningum hefði verið á herðum kosningastjórnar, sem hafði þó haft skamman tíma til að starfa og óljós markmið til að byrja með.“
Hún segir kosningastjórn vissulega eiga að geta tekið gagnrýni, en að hið sama eigi að gilda um alla innan flokksins. Uppbyggilega umræðu hafi vantað algjörlega úr þeirri átt sem gagnrýnin barst.
„Nú er svo komið að ég get ekki setið þögul hjá eða reynt áfram að ýta á að eitthvað verði gert til að bregðast við ásökunum um andlegt ofbeldi og launaþjófnað. Ég sé að þau sem ég trúði að myndu bregðast við hafa risið upp í vörn í stað þess að leysa málin. Af þeim sökum segi ég mig úr kosningastjórn (ekki Sósíalistaflokknum, ég hef fulla trú á að við vinnum vel úr þessum málum) en vona innilega að Sósíalistaflokknum auðnist að vinna vel úr þessum málum og breyta þeirri umgjörð sem nauðsynlegt er að breyta.
Á sama tíma lýsi ég yfir stuðningi við Karl Héðinn og önnur sem hafa komið fram með reynslusögur sínar og óska eftir hröðum viðbrögðum til að laga þessa menningu innan flokksins.“