Kínversk stjórnvöld vildu tengja Grænland við Belti og braut árið 2017. Þá verður að horfa til þess að Danmörk hefur ekki burði til að tryggja varnir á Grænlandi.
Carla Sands, sendiherra Bandaríkjanna í Danmörku 2017-2021, benti á þetta í viðtali við bandarísku fréttastöðina News Nation fyrir helgi en viðtalið fór fram eftir að Donald J. Trump Bandaríkjaforseti hafði ítrekað að Bandaríkin þyrftu Grænland öryggis síns vegna.
Sem sendiherra Bandaríkjanna í Danmörku var Sands jafnframt sendiherra á Grænlandi og í Færeyjum. Á vefsíðu Sands, carlasands.com, segir að í sendiherratíð hennar hafi Bandaríkin aukið útflutning til Danmerkur um 45%. „Meginmarkmið hennar sem sendiherra var að efla varnir Bandaríkjanna með því að stofna ræðismannaskrifstofu á Grænlandi. Með samvinnu ríkisstofnana og þingsins var markmiði hennar náð 2020.
Jafnframt gerði hún vel heppnaða verslunar- og samstarfssamninga við Grænland og Færeyjar til að sporna gegn skaðlegum áhrifum Rússa og Kínverja,“ segir á vefsíðu hennar.
Nú eru liðin fjögur ár síðan Sands lét af embætti sendiherra Bandaríkjanna í Danmörku og má fullyrða að öryggismál á Grænlandi hafi sjaldan verið jafn mikið í umræðunni og undanfarnar vikur. Tilefnið er auðvitað ummæli Trumps forseta um Grænland en hann áréttaði meðal annars í stefnuræðu sinni á dögunum að Grænland skyldi tilheyra Bandaríkjunum og svo gerði hann slíkt hið sama á fundi með Mark Rutte, framkvæmdastjóra Atlantshafsbandalagsins, NATO, í Hvíta húsinu í fyrradag.
„Við þurfum virkilega á Grænlandi að halda vegna þjóðaröryggis,“ sagði Trump á fundinum með Rutte. Það var af þessu tilefni sem News Nation leitaði til Sands.
„Ég tel að þessi lausn feli í sér heilbrigða skynsemi. Óbreytt staða er ósjálfbær. Danmörk hefur ekki efni á að þróa Grænland og hefur heldur ekki efni á að verja Grænland. Danmörk hefur einfaldlega ekki getu til þess. Hagkerfi landsins er á stærð við hagkerfi Colorado-ríkis. Svo við þurfum að tryggja varnir okkar til norðausturs og Grænland, stærsta eyja heims, rétt handan norðausturstrandarinnar, sem er þriðjungur af stærð Bandaríkjanna, er að mestu óvarið. Þegar ég tók við árið 2017 voru Bandaríkin að mestu fjarverandi á norðurslóðum. Við erum með herstöð sem heitir Pituffik á Norður-Grænlandi en að öðru leyti höfðum við ekki haft diplómatísk samskipti árum saman,“ sagði Sands í lauslegri þýðingu.
Spurð hvort verja þurfi Grænland fyrir Kína sagðist Sands horfa til bæði Kína og Rússlands. „Rússland hefur verið að gera margt í kringum Grænland. Vissulega hafa Rússar kafbátana og freigáturnar en Kína er í raun mesta ógnin … því Kína reyndi að toga Grænland inn í áætlun sína um Belti og braut árið 2017,“ sagði Sands
Nánar má lesa um málið í laugardagsblaði Morgunblaðsins.