Þorvaldur Þórðarson eldfjallafræðingur segist sjá vísbendingar um að kvika sé þegar farin á hreyfingu í jörðu undir Sundhnúkagígaröðinni.
Vísar hann þar til þess að sumir GPS-mælar virðast farnir að sýna landsig, en viðurkennir að mælingarnar séu innan óvissumarka.
„En síðustu tvær, þrjár mælingar á flestum stöðum virðast sýna það að mælarnir séu á niðurleið, það fylgir oft því þegar kvika er farin af stað,“ segir Þorvaldur í samtali við mbl.is.
Þar að auki bendir hann á að skjálftavirkni við Sundhnúkagígaröðina hafi aukist síðustu daga, sennilega óháð virkni á Reykjanestá sem hefur verið mikil síðustu daga.
Skjálftarnir síðustu daga hafa reyndar verið færri en vanalega að sögn Veðurstofu. Aðeins sex hafa mælst talsins við kvikuganginn síðasta sólarhringinn og nokkrir til viðbótar við Grindavík að sögn Steinunnar Helgadóttur náttúruvársérfræðings.
Þorvaldur segir þó að ef rétt reynist að land sé tekið að síga samhliða aukinni skjálftavirkni milli Stóra-Skógsfells og Sýlingarfells megi búast við gosi á því svæði á næstunni – það sem Þorvaldur kallar „endurtekið efni“.
„Ef þetta landsig heldur áfram því sem það er í augnablikinu erum við komin nálægt því að það sé komið gos,“ segir eldfjallafræðingurinn.
„En svo getur verið að móðir náttúra ákveði að snúa við taflinu, geri eitthvað annað en við erum að búast við,“ bætir hann við.
Rúmmál kviku undir Svartsengi hefur aldrei verið meira frá því að goshrinan við Grindavík hófst í desember 2023. Gert er ráð fyrir kvikuhólfið hafi bætt við sig tæplega 38 milljónum rúmmetrum af kviku frá því að landris hófst á ný meðan seinasta gos stóð yfir.