Ákvörðun um atkvæðagreiðslu tekin á morgun

Það stefnir í verkfall sjúkraflutningamanna.
Það stefnir í verkfall sjúkraflutningamanna. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Tekin verður ákvörðun á morgun hvort boðað verði til atkvæðagreiðslu um verkfallsboðun sjúkraflutningamanna sem starfa hjá heilbrigðisstofnunum.

Kjararáð Landssambands slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna (LSS) fundar á morgun þar sem sú ákvörðun verður tekin.

„Það þarf að fara í atkvæðagreiðslu og að tilkynna slíkt með 15 daga fyrirvara.“

Þetta segir Bjarni Ingimarsson, formaður LSS, í samtali við mbl.is.

Samtal við sveitarfélög gengur ágætlega

Á morgun mun samninganefnd LSS funda með samninganefnd Sambands íslenskra sveitarfélaga en það samtal gengur ágætlega að sögn Bjarna.

Enginn fundur hefur verið boðaður í deilunni með samninganefnd ríkisins.

Samningaviðræður við samninganefnd ríkisins stranda á launamun milli ríkis og sveitarfélaga en þeir sem starfa í sjúkraflutningum hjá sveitarfélögum eru á allt að 20% hærra kaupi en þeir sem starfa hjá ríkinu

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert