Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu handtók í gær mann sem braut rúðu leigubíls. Viðkomandi var vistaður í fangaklefa á meðan málið var skoðað og afgreitt.
Þetta kemur fram í dagbók lögreglunnar.
Meðal verkefna lögreglu í gær og nótt voru tvær tilkynningar um þjófnað á fatnaði. Í öðru tilfellinu var um innbrot að ræða og er málið í rannsókn.
Þá stöðvaði lögregla bifreið vegna ástands ökutækisins. Börn voru í bílnum og ekki í viðeigandi öryggisbúnaði. Skráningarnúmer voru tekin af bílnum.
Lögreglan sem sinnir eftirliti í Kópavogi og Breiðholti fékk tilkynningu frá vegfaranda um hóp af unglingsstrákum að elta stelpu á svipuðum aldri.
Þá sinnti lögreglan eftirliti við Mjódd vegna mögulegrar hópamyndunar ungmenna þar.