Birna Hafstein, formaður Félags íslenskra leikara og sviðslistafólks (FÍL) segist litlar nýjar upplýsingar geta gefið af kjaradeilu leikara og dansara við Borgarleikhúsið.
„Akkúrat núna erum við bara í miðju kafi og ég geri ráð fyrir að það verði eitthvað að frétta með kvöldinu.“
Spurð hvort útlitið sé betra en það hefur verið segist Birna ekki ætla að segja það. „Ég ætla bara að segja að það verði örugglega eitthvað að frétta með kvöldinu.“
Leikarar og dansarar við Borgarleikhúsið hafa verið kjarasamningslausir síðan í upphafi síðasta árs. Svo virðist sem lítið hafi þokast í viðræðum.
Boðuð verkföll hefjast á fimmtudag og munu hafa áhrif á sýningar, einkum og sér í lagi sýninguna: Þetta er Laddi.
FÍL gerði Borgarleikhúsinu nýtt tilboð á föstudag en því tilboði var hafnað á laugardag.