Arnar Már Ólafsson ferðamálastjóri segir gul ljós fyrir framan okkur. Gervigreindarspá Ferðamálastofu, sem er rúllandi spá sem uppfærist mánaðarlega, gerir ráð fyrir fækkun ferðamanna.
Ferðamönnum hefur fækkað í bæði janúar og febrúar miðað við fyrri spár og það hefur rúllandi áhrif. Arnar Már er þó bjartsýnn á innspýtingu markaðssetningar.
„Hvað veldur fækkuninni vitum við ekki. Það gæti þess vegna verið eitthvað tengt spennunni í alþjóðamálunum. Það er mjög erfitt að segja til um það,“ segir Arnar Már í samtali við mbl.is.
Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar, lýsir áhyggjum sínum af ferðamönnum sem koma hingað til lands frá Bandaríkjunum, í viðtali við Rúv.
Áhrifa tollastríðsins er farið að gæta víða og segir Jóhannes ferðaþjónustuna hér á landi ekki undanskilda. Samdráttur í fjölda ferðamanna frá Bandaríkjunum um til dæmis 5% gæti þýtt að allt að 8 milljarðar tapist í gjaldeyristekjum.
Gylfi Magnússon, formaður bankaráðs Seðlabanka Íslands, prófessor í hagfræði við Háskóla Íslands og fyrrverandi efnahags- og viðskiptaráðherra, sagði í samtali við mbl.is á dögunum að áhrifa kunni að gæta á íslenska ferðaþjónustu ef Bandaríkjamenn séu mjög svartsýnir á stöðu mála og fari kannski síður í dýr ferðalög til Íslands.
Bandarísk flugfélög eru mörg hver farin að draga saman tekjuspár þar sem líklegt sé að fólk ferðist minna á árinu en búist var við.
Bandaríkjamenn eru mjög mikilvægir að sögn Arnars Más og Bandaríkin eru lykilmarkaður með vel borgandi ferðamenn.
Fylgjast þurfi mjög vel með framvindunni. Ferðaþjónustan sé viðkvæm atvinnugrein fyrir ýmsum utanaðkomandi áhrifum og pólitískur óstöðugleiki og hugsanlegar kostnaðarhækkanir og gengissveiflur geti verið mjög stórir áhrifaþættir á flæði ferðafólks.
Ef horft er fram á fækkun ferðamanna frá Bandaríkjunum, þarf þá ekki einfaldlega að sækja á aðra markaði eins og til dæmis Asíu?
„Þetta er svona eitt af þessum utanaðkomandi atriðum sem við höfum enga stjórn á en það sem við gætum hugsanlega gert jú er að sækja með meiri krafti á mikilvæga markaði.
Það hefur verið mikið í umræðunni á undanförnum misserum að við þurfum að gefa meira í neytendamarkaðssetningu þar sem við erum að kosta mun minna til en okkar samkeppnislönd.“
Segir Arnar það samtal virkt. Bæði Samtök ferðaþjónustunnar og einstaklingar í bransanum hafi talað því máli af talsverðum krafti og bæði formlegar og óformlegar viðræður átt sér stað við ráðuneyti ferðamála.
„Því lengra sem við bíðum með það því meira þyngist í stýrinu.“
Ertu bjartsýnn að þið fáið innspýtingu?
„Já, ég er bjartsýnn á það. Það eru miklir hagsmunir í húfi.“