Um 23% einstaklinga sem liggja inni á spítala eru tilbúnir til útskriftar sem endurspeglast í svokölluðum flæðisvanda. Hér á landi má gera ráð fyrir að hlutfallið sé enn hærra þar sem skortur er á úrræðum utan spítala.
Þetta kemur fram í nýrri rannsókn KPMG og fjallað verður um á málþinginu Frá sílóum til samræmingar - um framtíð íslenska heilbrigðiskerfisins í Háskólanum í Reykjavík í dag.
Hér á landi telur aldurshópurinn 80 ára og eldri um 14 þúsund manns en á næstu 15 árum verður þessi aldurshópur 23 þúsund - eða næstum tvisvar sinnum fleiri samkvæmt mannfjöldaspá, að segir í tilkynningu.
„Heilbrigðiskerfi um allan heim standa frammi fyrir vaxandi áskorunum vegna öldrunar þjóða, aukinna krónískra sjúkdóma og takmarkaðra fjármuna. Þrátt fyrir framfarir í læknavísindum og nýsköpun eru mörg kerfi enn föst í fyrirkomulagi fjármögnunar þar sem horft er til stakra kostnaðarliða fremur en hámarksnýtingar fjármuna á heildina litið,“ segir meðal annars í tilkynningunni.
Gjörbylta þurfi hugsuninni um hvernig og hvar veita eigi þjónustu, sérstaklega gagnvart eldra fólki, og finna önnur úrræði en innan stofnana.
Á málþinginu munu sérfræðingar frá Íslandi, Danmörku og Bretlandi fjalla um málefnið frá ýmsum hliðum, ræða núverandi stöðu og leiðir til að þróa sjálfbærara heilbrigðiskerfi þar sem fjármunir nýtast til fulls.
Sérstök áhersla verður lögð á hvernig hægt er að brjóta niður veggi milli mismunandi aðila í heilbrigðiskerfinu og þannig bæta þjónustu á sama tíma og fjármunir eru betur nýttir.
Málþingið fer fram Háskólanum í Reykjavík í dag, 17. mars, kl. 15.30 - 17.00.